“Witness the Origin.”

Fyrsta Wolverine myndin er svolítið bland í poka en þegar ég sá hana fyrst var ég alls ekki hrifinn. Annað áhorf var hinsvegar talsvert önnur upplifun, það gerist stundum. Í þetta sinn voru væntingar ekki miklar en ég fann hitt og þetta sem mér fannst virka mjög vel. Hér er farið ofan í æsku Logan þar sem Victor Creed, hálfbróðir hans (hann er það ekki í blöðunum), elst upp með honum og hefur mikil áhrif á hann. Hálfbræðrunum er fylgt eftir í gegnum báðar heimsstyrjaldirnar og Vietnam stríðið þar sem Creed er sýndur missa stjórn á sinni villtu hlið á meðan Logan reynir að halda aftur af honum.

Mér fannst Liev Schreiber virkilega góður sem Sabretooth, talsvert betri en Tyler Mane í fyrstu myndinni. Mér fannst Taylor Kitsch líka fínn sem Gambit og Danny Huston mjög flottur sem illmennið Stryker sem var á bakvið Weapon X verkefnið. Það eru nokkur slæm mistök gerð í þessari mynd, þó ekkert stærra en Deadpool. Sú útgáfa af Wade Wilson sem hér birtist er hrein móðgun við aðdáendur þessarar frábæru persónu. Sem betur fer var þetta lagfært nokkrum árum síðar en engu að síður er þetta ófyrirgefanlegt. Blob var sömuleiðis frekar slæmur en hann var í litlu hlutverki. Þessi mynd er ágætis afþreying og hún veitir aukna innsýn inn í hugarheim Wolverine sem mér fannst þess virði að rifja upp.

“Nobody gets to kill you but me!”

Leikstjóri: Gavin Hood (Tsotsi, Ender´s Game, Eye in the Sky)