X-Men: DoFP er mjög góð ofurhetjumynd að mínu mati þar sem nóg er af hasar, spennu, brellum, þemun og gríni svo hún henti nánast öllum flokkum fólks. Úrvalsleikaraliðið gefur henni svo sannarlega nóg vænghaf til að hefjast á topp tindsins en því miður var einn karakterinn klipptur út sem hafði ágætisáhrif á framvindu söguþráðarins. Þetta útskýrir líka hvers vegna Anna Paquin var svona ofarlega titluð í cast-listanum í bíóútgáfunni, þar sem hún sást ekki nema í einum ramma.

Þeir sem ekki hafa séð hið svokallaða ‘Rogue Cut’ ættu svo sannarlega að horfa á hana áður en Apocalypse tekur við því ekki nóg með að við fáum að sjá Rogue heldur fær framtíðin meira vogarafl.

Þó framtíðaratriðin í upphafi og lok myndarinnar eru góð og keyra myndina vel áfram þá vantaði alltaf eitthvað í miðju myndarinnar. Í „Rogue-köttinu“ fáum við að fylgjast betur með framtíðargenginu og það fær eigið verkefni að sinna. Merkilegast er þó að nokkrum plotholum er bjargað sem ef til vill voru ekki áberandi en á sama tíma ótrúlegt að þetta fór framhjá okkur. Fáeinar litlar viðbætur hér og þar (nokkrar sem snúa t.d. meira að sambandi Beast og Mystique) tryggja það að heildarsýnin græðir á aukakjötinu.

Trúið mér, þið viljið sjá þessa útgáfu og helst bara sleppa hinni alfarið eftirá.