“Join the evolution.”

Fyrsta X-Men myndin er ein áhrifamesta ofurhetjumynd allra tíma. Myndin er í raun fyrsta af nútíma ofurhetjumyndunum, á undan Spider-Man, Hulk og auðvitað öllum Marvel Studios myndunum. Blade kom að vísu út tveimur árum áður, en það var öðruvísi mynd. Lykillinn að velgengni myndarinnar var að taka þessar persónur alvarlega og ímynda sér hvað myndi gerast ef þessir atburðir ættu sér stað í raunheimi.

Það besta við þessa mynd og X-Men myndirnar almennt er fyrst og fremst þrír leikarar. Hugh Jackman, Patrick Stewart og Ian McKellan gefa þessum myndum mikla dýpt og bæta klassa í efni sem gæti verið kjánalegt í röngum höndum. Bryan Singer á líka mikið hrós skilið en hann fann mjög persónulega tengingu við söguna þar sem honum fannst mutants minna á samkynhneigða, minnihlutahóp sem hefur þurft að þola fordóma.

Þessi mynd var gerð fyrir frekar lítinn pening í samanburði við hinar en Singer lætur þetta allt líta nokkuð vel út. Persónur eru misjafnlega vel heppnaðar en t.d. Sabretooth og Toad mættu vera betri. Samtöl eru stundum stirð og asnaleg sem skemmir fyrir eins og t.d. meira og minna allt sem Storm segir. Myndin er ennþá mjög góð en hefur þó aðeins elst.

Það er áhugavert að hugsa til þess hvernig besta persóna myndanna hefði orðið ef annar leikari en Hugh Jackman hefði leikið Wolverine. Aðrir leikarar sem komu til greina voru Russell Crowe, Mel Gibson, Aaron Eckhart, Jean-Claude Van Damme, Viggo Mortensen, Edward Norton, Keanu Reeves og Gary Sinise. Dougray Scott var reyndar ráðinn í hlutverkið en þurfti að hætta við svo hann gæti gert Mission Impossible 2.

“Every few hundred millennia, evolution leaps forward.”

Leikstjóri: Bryan Singer (The Usual Suspects, X2, Superman Returns, Valkyrie, X-Men Days of Future Past og Apocalypse)