Blossi_PosterÍslenski drasl-gimsteinninn sem margir hafa lengi beðið eftir að sjá aftur, eða í fyrsta sinn. Framlag Íslands til Óskarsverðlauna árið 1998 og í senn önnur kvikmynd Júlíusar Kemp eftir vinsældirnar sem Veggfóður hlaut. Unglingamyndin sem okkar eigin Róbert hjá Bíóvefnum skrifaði sérstakan óð til, og auðvitað bíómyndin sem mörgum þyrstir til þess að sjá gefna út í stafrænu formi.

Blossi – 810551 verður sýnd, aðeins einu sinni, í Bíó Paradís í næstu viku – föstudaginn 12. febrúar.

Myndin gerist undir lok 10. áratugarins og fjallar um eirðarlaus borgarbörn í leit að skemmtun. Þegar leiðir hinnar undurfögru Stellu og alkahólistans Robba liggja saman byrja hlutirnir að gerast. Þau enda á hringferð um landið á stolnum bíl með tilheyrandi óvæntum uppákomum, panikki, kæruleysi, neyslusukki og einum gömlum perra.

Myndin skartar líflegum stíl, óþekktum (og týndum?) leikurum og flottu sándtrakki sem algjörlega innsiglar hvað þessi hrái fjársjóður er mikið barn síns tíma.

Ekki nema að þú eigir rykugt spólueintak og gott VHS-tæki er Blossi óaðgengileg eins og staðan er í dag.
Ef forvitnin, eða fortíðarþráin, kitlar þig, endilega kíktu með.

Og ath. myndin verður ekki sýnd af gamalli spólu, heldur filmu!

Hér má sjá Facebook-event sýningarinnar.