Stutta útgáfan:
Mögnuð ofurhetja fær mynd sem er mjög svo “yfir meðallagi.” Gal Gadot stendur algjörlega undir nafni hetjunnar og smellpassar í hlutverkið. DC-syrpan er strax rifin upp úr skítahaugnum.

 

 

 

Langa útgáfan:

Loksins, loksins fengum við frábæra ofurhetjumynd með konu í aðalhlutverki, og það frá DC! Wonder Woman er frábær blanda af húmor, yfirdrifinni hasarblaðasögu og alvarlegri dramatík. Hún er smekkfull af flottum spennu- og bardagaatriðum sem leyfa þemalaginu að njóta sín. Zack Snyder, verandi einn af framleiðendum og höfundum myndarinnar verður svo auðvitað að hafa nokkur Snyder skot þar sem hægist á hlutunum og dýnamískur stíll myndasögublaðanna kemur fram. Hér er það gert í hæfilegu magni og á réttum tímapunktum. Ein besta sena myndarinnar er gott dæmi um vel gerðan Snyderisma.

Myndin segir frá því hvernig Wonder Woman, eða Díana Prince, varð til og hvernig hún þróaðist í þá ofurhetju sem við sáum í Batman v Superman: Dawn of Jusice. Í upphafi býr hún á eyjunni Þemiskíru ásamt öðrum konum sem kalla sig Amasónkonur, kvenkyns stríðsmenn sem gríski guðinn Seifur skapaði til að viðhalda frið meðal manna. Vel tímasett brotlending veldur því þó að Díana áttar sig á því að í veröldinni heyja menn stríð sín á milli og það er undir henni komið að enda það og koma á friði.

Leikararnir standa sig allir vel og eru hver öðrum betri. Gal Gadot er auðvitað Wonder Woman og stendur sig feikivel í þessu hlutverki. Sama hvað hún gerir á skjánum þá á hún alla athygli manns. Bæði sem óþroskaður og saklaus einstaklingur með barnslega sýn af veröldinni, en líka sem hin sterka og volduga ofurhetja. Hún er ekki eina sterka kvenfyrirmyndin sem við fáum úr þessari mynd. Hyppolyta, leikin af Connie Nielsen, er drottning Amasónkvennanna og móðir Díönu, en innri barátta hennar um að vernda eigið afkvæmi og senda það út til að bjarga veröldinni er áþreifanleg. Antiope, leikin af Robin Wright, er systir Hyppolyta og þar af leiðandi frænka Díönu. Sem fræknasti og besti stríðsmaður Amasónkvennanna þjálfar hún Díönu til að verða betri en hún sjálf. Þrátt fyrir lítinn skjátíma þá skipta þær Díönu miklu máli og hafa áhrif á hana og gjörðir hennar eins og við sjáum út myndina. Svo kemur Chris Pine og myndin fer í annan gír. Samband Gadot og Pine virkar vel þar sem samtölin og senurnar ganga upp þökk sé góðu neistaflugi. Ekki skemmir fyrir að hann er eiturflottur hermaður sem ætlar sér að bjarga milljónum.

Þetta er ekki eina sambandið sem virkar svona vel þar sem illa tvíeykið, Ludendorff og Dr. Maru, eru kostuleg í því að tryggja sér þýskan sigur. Það er eitthvað svo skemmtilega teiknimyndalegt við þau og hversu illgjörn þau eru. Elena Anaya stendur sig frábærlega sem Dr. Poison og nær svo sannarlega að vekja óhug með nánast engu öðru en rödd sinni og augum þar sem andlit hennar er hulið að miklu leyti. Danny Huston er ef til vill frekar dæmigerður sem hershöfðinginn Ludendorff og ef ekki væri fyrir Dr. Poison þá er ég hrædd um að myndin hefði fallið í svipaða gryfju og margar Marvel myndir þegar kemur að illmennum.

Myndin tekur sér sinn tíma í að gefa okkur Wonder Woman í allri sinni dýrð, en þegar það gerist þá er biðin alveg þess virði. Leikstjórinn Patty Jenkins hefur fært okkur eina af betri ofurhetjumyndum síðustu ára þar sem pláss er fyrir hasar, gaman, rómantík og goðafræði ásamt kennslu í því hvað það þýðir að vera mannleg. Í stað þess að setja fókus á útlit Wonder Woman þá leggur hún áherslu á samúð hennar, hugrekki og sterka réttlætiskennd.

Sagan er afar lík öðrum forsögum hetja, og heimsstyrjaldamynda ef út í það er farið, en það er margt ólíkt sem gerir þessa nokkuð sérstaka. Við fáum til að mynda nokkur dæmi um hallandi stöðu kvenna á árum fyrri heimstyrjaldar, bæði okkur til fróðleiks og til að létta andrúmsloftið. Fyrst og fremst er það þó hvernig við sjáum hversu ólík Wonder Woman er öllu öðru á þessum tíma. Hún stendur á sínu, hún klæðir sig eftir eigin háttalagi, hún ætlast til að borin sé virðing fyrir henni og hlustað sé á skoðanir hennar. Eitthvað sem við göngum út frá í dag en var fáránlegt á þessum tíma.

Myndin slær á rétta strengi á svo marga vegu að þó hún sé ekki gallalaus, þar sem hún þjáist sérstaklega fyrir flatan lokabardaga, þá er hún frábær mynd með góðum persónum sem krefst annars áhorfs. Útlitslega er hún æðisleg þar sem búningur Wonder Woman nýtur sín til fulls á gráum orrustuvelli og gefur áhorfanda von um að litir hetjuskaps geti útrýmt styrjöldum og stríði. Þó ekki nema bara þangað til kreditlistinn birtist og raunveruleikinn tekur við.