Sjaldan hefur verið eins erfitt að selja fólki kvikmynd sem á sér forvera. Fyrsta mynd Jarfans í fullri lengd er svo arfaslök að það er fullkomlega skiljanlegt ef þú slepptir “framhaldi” hennar. Hins vegar ætti forverinn ekki að draga þessa með sér niður, enda er hún skömminni skárri en sú fyrsta og kemst á köflum nálægt því að fanga þann ósvikna snilldarleika sem einkenndi betri X-Men myndirnar. Mannleg, þolinmóð og með áhuga á andrúmsloftinu, á meðan hún setur sig í svolítinn Kurosawa-stíl.

Japönsku borgarljósin bjóða upp á ansi fallega útlítandi nætursenur og Hugh Jackman hættir aldrei að vera fullkominn í hlutverkið. Í heildina er The Wolverine meingölluð hasarmynd sökum lokaþriðjungs sem er ekki á pari við það sem á undan kom en myndin inniheldur þar á móti þrusugóða opnunarsenu og nokkur augnablik sem synd væri að láta framhjá sér fara. Það hljómar ekki eins og mikið, en styrkleikar myndarinnar bera hana nógu langt til að myndin sé ekki bara öflug sárabót fyrir Origins: Wolverine, heldur fantagott eintak í fjölbreytta ofurhetjuseríu.

 

(PS. Ég mæli með „Extended“ R-rated útgáfunni. Treystið mér, hún er betri)