(Ath. þessi grein inniheldur spilli frá Ghibli kvikmyndunum Whisper of the Heart og The Cat Returns)

Ef Whisper of the Heart (1995) væri manneskja mundi ég faðma hana. Svo fast.

Kvikmyndin er furðu þunn í söguþræði samanborðin við annað sem Studio Ghibli hefur gert og er sú fyrsta sem var ekki leikstýrð af tveimur stærstu leikstjórunum, Isao Takahata eða Hayao Miyazaki. Leikstjórinn, Yoshifumi Kondō, hafði áður unnið við myndirnar Kiki‘s Delivery Service, Grave of the Fireflies, Porco Rosso, Pom Poko og Only Yesterday. Upprunalega átti hann að verða næsti stóri leikstjóri hjá Ghibli, en hann lést árið 1998 (og var áhrifavaldur að því að Miyzaki sagðist ætla að hætta á sínum tíma, en hann endaði á því að hægja á vinnuferli sínum, hætta, og byrja síðan aftur).

Í stuttu máli fjallar Whisper of the Heart um 14 ára bókaorm sem heitir Shizuku Tsukishima. Hún gerir lítið annað en að lesa bækur, mestmegnis ævintýrabækur. Hennar saga byrjar út af forvitni hennar, eða öllu heldur þegar hún eltir einkennilegan kött um Tokyo. Hann leiðir hana að antíkverslun þar sem hún sér meðal annars styttu af ketti sem kallast Baron Humbert von Gikkingen. Þannig byrjar hennar svokallaða ævintýri,

Fljótlega kynnist hún stráki sem hún verður hrifin af, Seji Amasawa. Eftir að hún uppgötvar að hann gæti þurft að flytja fljótlega til Ítalíu til að læra að hanna fiðlur, ákveður hún að skrifa skáldsögu. Þar komum við að aðalþema myndarinnar; að prófa sjálfan sig. Á endanum, þrátt fyrir mikinn metnað, verður skáldsagan hennar ófullnægjandi, enda gerð af manneskju með litla reynslu. Þrátt fyrir það hefur hún þróast í sterkari manneskju með annað viðhorf gagnvart framtíðinni.

Skilaboð myndarinnar eru þau að þú eigir að leitast eftir því sem þú vilt gera við líf þitt, sett í „coming of age“ unglingasögu, en að það muni taka tíma og orku að ná fullkomnun. Shizuku fær ekkert efnislegt fyrir sína reynslu, en veit þó meira um hvað hún vill gera í lífinu. Myndin rómantíserar ekki þá hugmynd að draumar og vonir manns þurfi að gerast. Í lokin er ekki öruggt að hún muni ná draumum sínum, þó vonin haldist í endann.

Ekkert yfirnáttúrulegt er að finna í myndinni fyrir utan nokkrar fantasíusenur sem gerast inni í huga aðalkaraktersins, en það er eitt af fáum skiptum sem Ghibli hefur farið þá leið. Hún hefur samt sömu kosti og fantasíubyggðu myndirnar þeirra: náin tengsl við karakterana, vel útsett átök og viðurstyggilega mikinn sjarma.

Engin illmenni, eða karakterar eingöngu skrifaðir til að koma í veg fyrir að Shizuku nái sínum markmiðum, eru sjáanlegir, því hennar eigin vilji og geta eru helstu andstæðingar hennar. Rétt eins og Miyazaki og Takahata eru þekktir fyrir, þá eru tilfinningar og langanir persónanna augljósar og góður tími er gefinn í að sýna þær. Flestir karakterarnir eru hormónafullir unglingar sem eru að ganga í gegnum ákveðna hluti í fyrsta skipti; framtíðaráætlanir, hrifningu, neitun og hugsunina að ekki allt gæti farið eins og maður áformar. Kjarninn er samt sem áður Shizuku. Hennar heimur er heimur áhorfandans, hvort sem það eru samskipti hennar við aðra, eða litlir hlutir sem hún tekur eftir.

Gaman er að bera myndina saman við spin-off myndina The Cat Returns (2002). Sagan hjá Shizuku var ófullnægjandi, rétt eins og The Cat Returns sjálf. Hún er formúlukeyrð, notast við reddingar og ekkert virðist vera tilviljanabundið við hana, þó ég geti ekki kallað hana slæma. Karakterar, umhverfi og römmun eru líka samanburðarhæf.

Whisper of the Heart er langt frá því að vera það þekktasta sem Studio Ghibli hefur gert og mun líklegast halda þeim statusi alla tíð, en endilega kíkið á hana til að njóta óðs hennar til listsköpunar.