Það var fyrir 20 árum sem þessi áhrifamikla mynd kom í kvikmyndahús og sýndi öllum að hvíta húsið getur líka fallið. Enn þann dag í dag er það ein eftirminnilegasta hryðjuverka árás sem fest hefur verið á filmu. Nú þegar framhaldið er á næsta leyti þá hafa margir fetað nostalgíu fótsporin og rifjað upp sína fyrstu reynslu af Independence Day. Hér kemur mín sem ég tel hálf einstaka sökum þáverandi aldurs og förunauti.

Þegar myndin er í sýningu hérlendis var pabbi minn sýningarmaður í Regnboganum sem má segja að sé orsök bíófínkar minnar. Allavega, ég var 6 ára þegar af einhverri ástæðu vinur minn sem er jafngamall mér talar um geimverumyndina sem er í bíó. Þetta er drengurinn sem kynnti mig fyrir Star Wars á þessum tíma og því frekar skiljanlegt að hann væri dolfallinn fyrir öllu geimtengdu. Ég man ekki alveg hvernig þetta fléttaðist svo áfram en af einhverrri ástæðu töldu bæði foreldrar mínir og hans að það væri í lagi fyrir okkur, tvo sex ára gemlinga, að fara á myndina að kvöldi til alein. Ok, pabbi var í sýningarklefanum en fyrir utan það þá vorum við ein. Þegar kemur að hlé þá sat ein spurning eftir hjá mér. Hvernig gat hann kýlt geimveruna til dauða? Hversu margir DÓU eiginlega í fyrstu-bylgju árásinni??

maxresdefault

Þrátt fyrir það þá var myndin og þessi bíóferð afar ofarlega í huga mér lengi vel (enda drulluskotin). Þetta var eitthvað nýtt, spennandi, ekki ein af þessum einföldu a-z myndum þar sem þú vissir allt eða fólk brast í söng að ástæðulausu. Þetta var sci-fi bólan sem ég greip og síðan þá hef ég ekki sleppt. Eyðileggingin, geimverurnar (æðislegu klisjurnar, ameríska væmnin) og spennan var allt saman hrikalega hræðilegt fyrir unga huga en af einhverri ástæðu vildi ég meira. Núna 20 árum seinna fæ ég ósk mína uppfyllta og það sem betra er ég fæ að endurupplifa fyrstu myndina á hvíta tjaldinu á tvöföldu sýningunni okkar sem sýnd verður 21. júní.

Þar sem um er að ræða tvo áratugi þar sem myndin var í kvikmyndahúsum hérlendis fóru eflaust ekki allir lesendur okkar á hana í bíó og því er fyrsta reynslan ef til vill af VHS spólu í túbutækinu eða nýlegri af Blu-Ray disknum í háskerpu. Hver sem hún er þá viljum við heyra af ykkar reynslu hér á kommentakerfinu.