Stutta útgáfan: Hressandi og ljúf afþreying með gömlum vinum (og nýju kyntrölli til að létta lundina í skammdeginu).

8

 

 

Langa útgáfan:

15 árum eftir að við kynnumst Bridget Jones í fyrsta sinn fáum við að sjá hvernig fyrir henni er komið (og hvert líf hennar stefnir!)

Klaufabárðurinn elskulegi, hún Bridget Jones (Renée Zellweger) hefur haft það ansi gott síðan við sáum hana síðast þegar hún samþykkti bónorð herra Darcy (Colin Firth) á órómantískasta (og klaufalegasta) hátt sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Liðin eru tæp 10 ár síðan þau hófu sinn dans en á þeim tíma hafa þau búið saman, sofið saman, stundað kynlíf saman og hætt saman. Þrátt fyrir það vegnar Bridget vel. Hún er í góðu starfi, á góða vini og klikkaða mömmu sem er alltaf jafn klaufaleg í samskiptum við dóttur sína. Hvað annað þarf hún? Hvað með eina eldheita nótt með Ameríkananum Jack (McDreamy… ég meina Patrick Dempsey) og svo aðra með hennar fyrrverandi.

Þar sem þetta er hin óheppna Bridget þá verður til óvæntur bumbubúi en hún hefur ekki hugmynd hvor þeirra gæti verið pabbinn? Auðvitað er Bridget frekar háöldruð (43 ára) og því er kastað skýrt fram að þetta er hennar seinasti séns á að eignast barn. Frekar einföld hugsun en hún gengur sögunnar vegna. Því næst gengur myndin út á að koma Bridget í gegnum haug af vandræðalegum augnablikum, óléttu skoðanir, erfiðar vinnuaðstæður með nýjum yfirmanni, kasta okkur fram og til baka í hver við teljum að eigi að vera faðirinn og hverjum hún eigi að enda með. Inn koma hashtöggin og liðaskiptan með hvort hún velji nýjan, glansandi mann sem hefur allt til brunns að bera eða fer hún enn einu sinni í gömlu skóna með slitnu reimunum og gat í sólanum sem er Mark Darcy.

Ég hef lengi sagt að ef bíómynd væri með Emmu Thompson í leikaraliðinu þá hlyti hún að vera góð. Hér er engin undantekning. Margir gætu talið sig hafa séð alla hennar gullmola sem fæðingarlækni Bridgetar kastað fram í trailerum myndarinnar en sem betur fer á hún nóg af góðum línum og enn betri senum með Bridget og feðrunum tveimur.

la-et-bridget-jones-s-baby-trailer-20160628

Það sem heillar mig mest við þessa mynd er þroski Bridget en hún virðist loksins sátt í eigin skinni meðan fyrri myndirnar gerðu út á það að tala um holdafar hennar og ofþyngd (61 kíló). Þó hún eigi eitt sorglegt kvöld í upphafi myndarinnar þá gerir hún sér stóran greiða með því að skipta um tónlist og byrja að dansa í stofunni við hið klassíska Jump Around. Hún gengur um sem höfuðið hátt og þó hún sé einhleyp og ein þá lýtur hún á það bjarta og einbeitir sér að því. Um leið og lífið verður með leiðindi þá fer hún bara á stúfana og grípur lífið með báðum höndum.

Talandi um þróun persónu þá virðist sem Mr. Darcy sé þeim mun linari en hann var fyrst þegar við kynntumst honum. Í stað hins stífþeytta smjörklumps með kynþokkafullt holdafar og gáfur í stíl þá er komin aðeins þægilegri, eldri og silfraðri refur fyrir konur að slefa yfir. Það kemur alveg bersýnilega í ljós í einu atriðinu þar sem hann starir á hina kjánalegu Bridget njóta lífsins og dansa og ótrúlegt en satt þá brosti hann. Þó Dempsey eigi allan daginn kynþokkafulla hlutverkið þá á hann ekkert í hinn áreiðanlega og traustvekjandi Mr. Darcy.

Það er einnig mikil ánægja í því að sjá Bridget loks geta valið á milli tveggja góðra manna en ekki eins góðs og annars fávita með einn stífan í hverju atriði. Dempsey leikur Jack afbragðsvel með hressleika og nokkrum mjög góðum línum sem bæði gleðja áhorfendur og koma Mr. Darcy í ójafnvægi sem verður þá enn fyndnara. Hann er það viðkunnanlegur að áhorfandinn getur ekki annað en vonað að hann eigi barnið og Bridget velji hann.

PATRICK DEMPSEY stars alongside Oscar® winner RENÉE ZELLWEGER in the next chapter of the world's favorite singleton in "Bridget Jones's Baby." Directed by Sharon Maguire (Bridget Jones's Diary), the new film in the beloved comedy series based on creator Helen Fielding's heroine finds Bridget unexpectedly expecting.

Þegar kemur að leikaraliðinu eru ekki margir (fyrir utan Emmu Thompson) sem slá Renée Zellweger við hérna þó nýja vinkonan (Sarah Solemani) og nýja kyntröllið gefi okkur ákveðið krydd sem dregur myndina nægilega langt frá formúlu fyrstu tveggja myndanna. Hún viðheldur klassíska breska gríninu, ástinni á persónunum en heldur sér frá of miklum endurtekningum eins og Edge of Reason gerði því miður of mikið af.

Þetta væri samt ekki alvöru Bridget Jones mynd nema með haug af góðri tónlist. Líkt og fyrsta myndin gerði þá nýtir leikstjórinn tónlistina vel til að leggja áherslu á styrkleika, veikleika, persónutöfra og aðstæður í myndinni. Þegar litið er yfir lagaúrvalið er góð blanda af nýjum, klassískum, hressum, rómantískum og ástríðufullum lögum sem eiga einstaklega vel við líf Bridget. Uppáhalds atvikið mitt er þegar lagið Fuck You kemur upp, auðvitað í kringum nýja yfirmanninn sem gerir líf Bridget erfiðara.

Oscar® winners RENÉE ZELLWEGER and COLIN FIRTH reprise their roles in the next chapter of the world’s favorite singleton in "Bridget Jones’s Baby." Directed by Sharon Maguire (Bridget Jones’s Diary), the new film in the beloved comedy series based on creator Helen Fielding’s heroine finds Bridget unexpectedly expecting.

Myndin er þó ekki gallalaus og þó ég tali vel um tónlistina hér á undan þá kemur kafli undir lok myndarinnar sem hefði mátt fylgja tóni myndarinnar betur en þá virðist sem leikstýran hækki allt í botn og setur hana á fast forward. Hlaupin á spítalann og tónlistin á þeim kafla var ýktur og minnti á trassaskapinn í tónlistarvali í Edge. Hvort það sé myndlíking fyrir hvernig lífið breytist hratt með fæðingu barns eða ekki þá kom þetta frekar hratt upp á áhorfandann. Annar galli er hvernig myndin hefði mátt gæta smáatriðanna eins og afmælis Bridgets sem er annar dagur og á öðrum árstíma en kom fram í fyrstu myndinni. Það eru svona atriði sem fellt geta marga og draga hana að vissu leyti niður hjá mér. Þó ekki mikið. Einnig hefði Bridget mátt eiga fleiri munnræpu atriði sem hún er jú þekkt fyrir. Í upphafi myndarinnar stendur hún frammi fyrir fullt af fólki í jarðaför og slapp ótrúlega vel úr því. Það er ekki sú Bridget sem ég þekki. Leikstýran hefði mátt gefa henni 3-4 aulalegar setningar í viðbót sem hefði gert aðstæðurnar þeim mun vandræðalegri og þar af leiðandi fyndnari.

Þetta er yndislega skemmtileg mynd sem lokar hringnum vel og ég get lofað ykkur því að hún mun gleðja áhorfendur. Þó svo hún fari eftir áður skrifaðri uppskrift sem allir kunna utan að þá er ferðin alveg þess virði.