Nýja Planet of the Apes serían hlýtur að vera ein af óvæntustu þríleikjum seinustu ára. Þetta eru myndir sem er einungis hægt að gera með svakalegum kostnaði en þrátt fyrir það fylgja þau ekki blockbuster-formúlunni. Þetta er ekki sería þar sem þeir pumpa út framhaldsmyndum einungis í gróðaskyni heldur af nauðsyn svo hægt sé að segja fullmótaða og fullkláraða sögu um apann Caesar. Hvernig sem litið er á seríuna er víst að þetta verður ekki endurtekið á næstunni. Jafnvel gamla serían átti nokkrar myndir sem voru líklegast framleiddar í flýti til þess að græða nokkra aura.

Eftir ástættanlegu fyrstu myndina, Rise, og frábæra framhaldið, Dawn, er komið að seinasta kaflanum, War for the Planet of the Apes. Tvö ár hafa liðið frá atburðum Dawn. Caesar (Andy Serkis) og apaflokkurinn hans ferðast um yfirgefin svæði Ameríku í leit að varanlegum dvalarstað. Það gengur erfiðlega þar sem einbeittur liðsforingi, leikinn af Woody Harrelson, leitar þau uppi með öllum tiltækum ráðum. Meira verður ósagt enda tekur myndin ófyrirsjáanlegar ákvarðanir og kom meginsögusvið myndarinnar þessum penna algerlega á óvart.

Þessi þríleikur er saga Caesars fyrst og fremst. Með hverri mynd verður örkin hans sterkari og þá sérstaklega í þessari. Fyrstu tvær byggðust mikið á samskiptum hans við annað mennskt fólk. War tekur annan vinkil (Harrelson er t.d. eina manneskjan með einhverja dýpt) og skoðar Caesar sem leiðtoga apanna. Hverjar eru skyldur hans gagnvart, getur hann hlíft þeim frá hermönnunum á eftir þeim og kemst hann upp með persónulegar hefndaraðgerðir þegar hann á að leiða flokkinn sinn? Án efa besta örk Caesar. Malcolm X/Martin Luther allegorían í Dawn milli hans og Koba var góð en nýjasta er ögn betri. Nánast magnað að færri mannfólk jafngildir betri mynd.

Það gæti verið vegna þess að tæknibrellurnar eru óaðfinnanlegar. Allar skepnur myndarinnar voru lifandi og til í alvöru. Mér líður jafnvel illa yfir því að hafa skrifað “skepnur”. Það er óhugsandi að þessar brellur verða úreltar einn daginn. Sama hugsaði maður reyndar um Matrix en það er skot í myndinni þar sem Maurice, vingjarnlegur órangútan, færir sig hægt og rólega nær myndavélinni, starandi á áhorfendur í nærskoti sem er gjörsamlega magnað og, hyperbole varúð, raunverulegasta tæknibrelluskot sem undirritaður hefur séð. Enn og aftur, þetta er mynd sem þarf á þessu budget og þessum tæknibrellum að halda og það er enga feilnótu að sjá í þeirri deild.

Stóra spurningin hefur lengi verið: hver á að fá allt kredit fyrir þessar persónur, fyrir Caesar t.d? Er það tæknibrelludeildin eða er það Andy Serkis. Best að halda sér tiltölulega hlutlausum en byggt á framleiðslumyndböndum á Serkis mikinn heiður skilið. Túlkunin hans er mögnuð, einlæg, epísk, bara VÁ. Woody Harrelson er líka nokkuð góður í sinni tiltölulega over-the-top frammistöðu sem á þó rétt á sér þegar flétturnar skýrast.

Leikstjórinn Matt Reeves tæklar mikið og snertir m.a. á borgarastyrjöld Bandaríkjanna, þrældóm og þónokkrum biblískum tilvísunum. Hann lætur allegoríurnar ekki taka yfir og rugla í manni heldur nær að halda fókusnum við átök apanna og mannanna. Aðeins reyndur leikstjóri getur komið að mynd sem þarf að þaulskipulögð vegna tæknibrellavinnu og Reeves er svo sannarlega orðinn það.

Myndin nýtur sín í smærri mómentunum (eins og fyrrnefnd senan með Maurice) en þegar þess þarf kann Reeves að setja upp heljarinnar hasar en aðeins ef sagan kallar á það. Mögulega þarf eitthvað að melta það betur en klárlega er þetta besta mynd þríleiksins að mati penna.