Ætli 2016 verði árið þar sem nýi DC-heimurinn nái loksins að stela almennilega þrumunni af Marvel?

jobsAf þessu nýja sýnishorni að dæma siglir allt í dökkt og gott fjör hjá „Verstu hetjum í heimi,“ þ.e.a.s. Sjálfsmorðsteyminu, en bæði sýnishornin (sjá hið fyrra hér) hafa notið góðs af fínu músíkvali til þess að gefa tóninn fyrir það sem bíður myndasögufíkla nú í ágúst.

Leikstjórinn David Ayer (End of Watch, Fury) hefur ítrekað sagt að Suicide Squad verði gerólík öðrum myndasögubíómyndum og taki geirann á glænýtt level, enda sjálfur lítt hrifinn af slíkum myndum yfir höfuð.
„Veistu, allar þessar myndir fjalla um það að eyða einhverju illu vélmenni frá plánetu X áður en það eyðir heiminum. Hverjum er ekki sama? [Suicide Squad] er saga um átök og einangrun, fólk sem hefur verið slæmt og fær skyndilega óvænta líflínu til þess að gera eitthvað rétt. Fyrir mér hljómar það alls ekki svo illa,“ mælti hann við CinemaBlend.

Með helstu hlutverk fara Margot Robbie, Will Smith, Jai Courtney, Viola Davis, Jay Hernandez, Joel Kinnaman, Jared Leto og Cara Delevingne.

Kíkið á sýnishornið… og sjáið hvort þið standist þá freistingu að raula ekki með laginu.

Ég hef annars ekki hugmynd um hverjir sjá um markaðssetninguna fyrir Suicide Squad, en ljóst er að teymið á bakvið Batman v Superman hefði mikið getað lært af þeim.