Stundum er nauðsynlegt að hella í sig vondri bíómynd svo vita skal betur hvernig meta á það góða. Inn á milli er þó alltaf séns á því að slysast til þess að sjá eitthvað svo slæmt að það verður æðislegt. En síðan koma þær myndir sem eru annaðhvort bara hreinar tímasóanir eða bullandi vonbrigði á flestan hátt.

Förum yfir þær 20 verstu, samkvæmt okkar fimm álitsgjöfum. Myndirnar eru ekki raðaðar eftir neinum númerum, heldur stafrófi.

 

 

ANNABELLE: CREATION

Það líður þó ekki á löngu þar til að leikstjóri myndarinnar, David F. Sandberg, fellur í svipaðar gildrur og hann gerði í frumraun sinni ‘Lights Out‘ (sem er á meðal verstu mynda 2016) og við góðri uppbyggingu tekur fölsk tilfinningasemi og skortur á meðvitund og ígrundun um efnivið myndarinnar.

 

BEAUTY AND THE BEAST

Þessi hefur sínar björtu hliðar (þ.e. Luke Evans) en í heildina er þetta ljótasta „leikna“ endurgerð Disney, sem er áhugavert þegar haft er í huga að þessi er sú Disney-legasta af þeim öllum. Tölvubrellunum er gubbað í ramman á listlausan máta, tónlistin er framsett á hjartalausan hátt (teiknimyndin er ekki fullkomin en vá lögin voru flott) og Disney klisjurnar grípa söguna hvílíku taumhaldi að myndin fær ekkert svigrúm til að vera neitt annað en öfgafull, hálf-ógeðfelld paródía af klassískri sögu. Hátt glymur í tómri tunnu o.s.frv.

 

BOKEH

Þá loksins að einhver gerir post-apocalyptic mynd sem á að gerast á Íslandi er því sóað í þetta hrútleiðinlega drasl sem inniheldur díalog á borð við: „Do you hear that?“ „What?“ „It’s the heartbeat of the world“.
Afsakið á meðan ég æli. Kvikmyndgerðarmennirnir hafa greinilega ekki gert góða heimildavinnu (eða er bara alveg sama?) því á einum tímapunkti heyrist í engisprettum. Nema þær hafi komið með heimsendinum?

 

BRIGHT

Ekki alveg allra versta mynd ársins eins og einhver gagnrýnandi sagði. Hugmyndin á bak við hana er skemmtileg, en þetta er samt drasl, gerir lítið áhugavert við konseptið og er bara samansafn af úldnum buddy-cop klisjum, lélegum aulahúmor og generic hasar og plottið enn eitt kjaftæðið um “the chosen one”. David Ayer hefur sýnt að þó að hann hafi vott af hæfileikum er hann alls ekki rétti maðurinn til að gera blockbuster hasarmyndir.

 

THE BYE BYE MAN

Ábyggilega verst klippta mynd ársins, og fratleiðinleg og klúðursleg ofan á það.

 

THE DARK TOWER

Mann grunaði svo sem að þessi yrði slæm, enda var það orðið á götunni, og miðað við möguleikana fyrir hendi var leitt hvað þessi heppnaðist illa. Til eru svo sem verri Stephen King-aðlaganir en þessi mikli fantasíuópus hans átti betra skilið heldur en þessa pappírsþunnu „pilot“ nálgun. Allt við myndina var uppskriftarbundið, flatt og áhrifalaust. Svo er illa gert að sóa svona flottum Idris Elba.

 

FIFTY SHADES DARKER

Við skulum ekkert vera að flækja þetta. Fólk fer á 50 Shades myndir fyrir lostafullar ástarsenur og, ef við erum heppin, ástarsögu sem kemur okkur í öngvit. Þessi hefur hvorugt. Mormónar stunda áhugaverðara kynlíf en Anastasia Steele og Christian Grey. Hef ekki orðið fyrir jafn miklum bíógreddu-vonbrigðum frá því ég komst að því að það væri engin full-frontal nekt í Magic Mike. Vörusvik!

 

GEOSTORM

Það hefði svo margt skemmtilegt, fyndið og jafnvel heimspekilegt verið hægt að gera við sögu sem byggist fyrst og fremst á þerri hugmynd að mannkynið hafi vald á því að stjórna veðrinu. Hugsið ykkur siðferðilegu spurningarnar og brjáluðu hasaratriðin sem gætu komið út úr slíkri sögu. Ef ekki einu sinni það, langar ykkur ekki allavega að sjá hvað í ósköpunum fyrirbærið geostorm er? Mig líka nefnilega líka, og ég hef séð myndina. Geostorm byrjaði og endaði án alls kjöts. Leikarahópurinn var ágætur en sagan og þau fáu stórslysaatriði sem við fáum eru hrein hörmung. Með þeim leiðinlegri af sinni gerð. Hún nær ekki einu sinni að vera nógu asnaleg til að vera fyndin, hún er bara óspennandi.

 

JUSTICE LEAGUE

Þér má finnast hún skemmtileg, en þetta er þessi mynd er eitt fljúgandi lestarslys. Vissulega var hún fórnarlamb mjög erfiðra aðstæðna (leikstjóri stígur frá, annar fenginn inn, myndin endurmótuð í eftirvinnslu + dýrasti skeggrakstur kvikmyndasögunnar), en það sést svo sannarlega á niðurstöðunni. Myndin er skítþunn, tætt og hallærisleg sem er mikil synd, því DC heimurinn var rétt svo að komast aftur á fínt ról með Wonder Woman. Cameo frá Ingvari E. tókst ekki einu sinni að bjarga afþreyingargildinu, en mikið var nú kostulegt að heyra Jason Momoa reyna að tala íslensku.

 

RESIDENT EVIL: THE FINAL CHAPTER

Draslendir á draslseríu (nema þessi hefur verst klippta hasarinn af öllum fimm, og ömurlegasta „lokatvistið“).
Resident Evil myndabálkurinn gæti vel verið ein stærsta ástæðan fyrir því að litið er svo oft niður til tölvuleikjamynda. Það getur varla neinn fílað þetta meira en leikstjórinn og hans frú.

 

SNJÓR OG SALÓME

Á þessu ári einu fengum við fínt íslenskt efni eins og Hjartastein, Fanga, Undir trénu, Reyni sterka og jafnvel Fjallkónga.
En verra verður það ekki heldur en Snjór og Salóme frá liðinu sem gelti út Webcam. S&S er ekki hörmuleg, því tilraunin ein sýnir krúttuð merki um einlægni, en úrvinnslan týnd, sjarmalaus á alla vegu og viðvaningsleg.

 

THE EMOJI MOVIE

Það kemur smávegis út eins og einhver framleiðandi hjá Sony hafi bent á Inside Out, Wreck-It Ralph og The Lego Movie, síðan hugsað: „Gerum eitthvað svona!“ án þess að skilja til fulls hvað gerði þær góðar eða sjarmerandi. Heimurinn í Emoji-myndinni er manískur, illa úthugsaður og sjaldan lokkandi. Myndin er uppfull af orku og ærslagangi en laus við alla sál, alla hlýju, alla sköpunargleði. Fljótt magnast svo upp leiðindin eftir því sem líður á öfgadæmigerða atburðarás og klisjum fjölgar hratt, sömuleiðis pínlegu orða­gríni og miskunnarlausum „plöggum“ sem jaðra við það að vera eins konar fyrir­tækjaáróður. Meirihluti framvindunnar gengur út á það að fylgjast með persónum stytta sér leiðir í gegnum forrit eins og Instagram, Twitter, YouTube, Just Dance, Spotify og fáum við meira að segja snögga kennslu á CandyCrush. Svo slæmt verður það.

 

THE LAST FACE

Sean Penn goes full retard sem leikstjóri. Eða kannski full libtard? Hann heldur að hann sé að segja eitthvað um hvað lífið er erfitt í Afríku en ákveður að setja glataða ástarsögu um hvítt fólk í forgrunninn og hörmungarnar í Afríku enda sem einhvers konar skraut (mjög óhugnalegt skraut) og það virkar svolítið eins og þessi glataða ást eigi að vera jafnvel ennþá sorglegri en AIDS og ungbarnadauði. Í alvöru, hr. Penn? Það hjálpar ekki að samtölin í myndinni eru álíka vel skrifuð og samtölin í The Room, en bara ekki eins fyndin, og myndatakan er beyond tilgerðarleg (bókstaflega hálf myndin er í einhvers konar silhouette).
Ugh!

 

THE MUMMY

Þetta kemur frá stórum Tom Cruise aðdáanda en jeminn hvað þessi mynd er fyrirsjáanleg, aulaleg og kemur beint af ryðguðu færibandi, eins og öll ræman hafi verið sett saman úr stúdíónótum. Meira að segja Krúsarinn sjálfur var að reyna of mikið að vera harður. Mun vera þekkt sem kvikmyndin sem drap þetta svokallaða Dark Universe… fyrir utan Dracula Untold vissulega.
Þetta hlýtur að vera eitthvað met.

 

PIRATES OF THE CARIBBEAN: SALAZAR’S REVENGE

Þessi fær heiðurinn að vera eina myndin sem svæfði mig í bíó þetta árið. Í samanburði við tilkomumikla endurlífgun Fast & Furious seríunnar í fimmtu myndinni mátti alveg vona að Pirates of the Caribbean myndi gera slíkt hið sama. Niðurstaðan var því miður þveröfug. Öll orkan sem fyrstu þrjár myndirnar buðu upp á hefur horfið og henni í stað situr þreyttur og latur Johnny Depp innan um fersku andlitin sem bjóða ekki uppá neitt nýtt. Hasarinn er geldur og handritið er bull. Kominn tími til að sökkva þessu skipi.

 

RINGS

Það næsta sem ég hef komið því að labba út allt árið. Mökkleiðinleg og svæfandi.
Af óskiljanlegum ástæðum tekst henni að láta hörmungina Ring Two líta vel út í samanburði.

 

THE SNOWMAN

Öll getum við átt vonda daga, og aðeins hópur fagmanna gæti klúðrað svona eftirminnilega. Liggur við að það sé aðdáunarvert (ef ekki efni í skylduáhorf) hvernig langflestar deildir missa marks; handritið, leikstjórnin, tónlistarnotkunin (hefur nokkurn tímann eins alvarleg bíómynd notast tvisvar sinnum við lag í líkingu við Popcorn með Hot Butter? Af öllum). Og meira að segja klippingin er furðu viðvaningsleg á stundum. Flæðið er taktlaust sums staðar og til að kóróna allt eru fleiri göt í söguþræðinum heldur en telja má á fingrum beggja handa. Þetta gæti eitthvað tengst því að haugur af myndefni var klipptur úr loka­útgáfunni, af sýnishornum að dæma. Hræðileg mynd, en allir sem hafa ósvikinn áhuga á kvikmyndagerð gætu þurft að sjá hana, og stúdera.

 

SPLIT

Flatt, illa skrifað, aulalegt og þreytandi sálfræðiþrillersdrama eða hvað hún reynir að kalla sig. James McAvoy er fínn en tilgerðin hefur enn ekki yfirgefið Shyamalan og hvaða skilaboð sem hann reynir að tækla tínast í sýnimennsku og sífelldum töfum framvindunnar (og tvö af þrjú fórnarlömbum sögunnar gætu varla verið meiri pappakassar þó handritið reyndi). Lukkulega er þessi ekki jafn slæm og The Visit eða The Happening. Það er… plús. Vona innilega að Glass fari nú ekki að skemma Unbreakable of mikið.

 

THOR: RAGNARÖK

Bæði grimmdarlega ofmetin og í senn slakasta Marvel myndin til þessa; pínleg í tilraunum sínum til endalausra djókdælinga og klunnalega ofin auk þess að vera útlitslega frekar mikil óreiða (brellurnar sérstaklega eru forljótar, í samanburði við t.d. Guardians myndirnar eða jafnvel fyrri Thor-myndir). Það er gott og blessað að Marvel viðurkenni loksins að þeir eru mestmegnis í gamanmyndageiranum en miðað við kjötið sem þessi atburðarás býður upp á er hreint krimmalegt hvað öll þessi mynd hefur mikið bráðaofnæmi fyrir tilfinningadrama eða þunga – sem yfirleitt hjálpar þegar þú ert að flytja karaktera á nýtt level. Ekki bara fara svo ágætis Ragnarök til spillis, heldur heil, bálreið Cate Blanchett og fjöldinn allur af góðum hugmyndum sem víkja fyrir staðlaðri „buddy-vegamynd“ sem ýtir lykilsöguþræðinum með Blanchett og spádómum um Ragnarök algjörlega til hliðar (og við skulum ekki einu sinni byrja á því hvað Sif virðist allt í einu skipta þessum heimi engu máli!). Meira að segja Hulk fær merkilega lítið til að gera og nýtist að mestu sem brandaramaskína. Nokkrir ágætir sprettir frá Jeff Goldblum bjarga því sem eftir setur, en bara rétt tæplega.

 

TRANSFORMERS: THE LAST KNIGHT

Jesús, Michael Bay! Farðu aftur í gömlu góðu hasarmyndirnar, í það minnsta eitthvað R-rated dót sem virðist betur henta plebbahúmornum og groddaralegu ofbeldisþörf þinni. Ef þú tekur þessa tvo þætti úr Bay-mynd stendur fátt eftir nema sundurlaus hasar og heil orgía af „földum“ vörukynningum. The Last Knight er alltof löng, heimsk, ófyndin (og guuuð, hvað hún reynir) og bara hreint frat frá byrjun til enda. Það er ekkert að því að sækjast í tón sem apar eftir yfirdrifnum teiknimyndum, en hér koma persónur og fara með engum tilgangi, hver hasarsena er u.þ.b. 10 mínútum of löng og greyið Mark Wahlberg hefur séð betri daga. Gleymum svo ekki þessum hryllilega óþolandi aspect-ratio skiptingum, sem eru nóg til að tryggja hausverk í tvo og hálfan tíma, að frátöldum flugeldunum.

En samt er hún skárri en Transformers 4. Úff.

 

Álitsgjafar: Atli Sigurjónsson, Birgir Snær Hjaltason, Hildur María Friðriksdóttir, Hörður Fannar Clausen, Tómas Valgeirsson