Hver er mælirinn fyrir hvort að mynd hafi „heppnast“ eða ekki? Eru það haganaðurinn á keyptum miðum og eintökum, er það umræðan sem fylgir henni, eða getur tíminn einn sagt um það?

The Lone Ranger var ein af þessum myndum sem voru í umræðunni löngu áður en þær komu út. Stórfengleg uppæð peninga sem fór í gerð myndarinnnar var mjög umtöluð, og þá helst á neikvæðan hátt. Lone Ranger‘inn sem karakter var einnig svo gott sem gleymdur í poppkúltur nútímans og fólk átti erfitt með að mynda sér áhuga fyrir mynd með Armie Hammer (sem hafði þá aðeins komist í sviðsljósið í The Social Network) í titilhlutverkinu. Hvað þá ráðningu Johnnys Depp í hlutverk indjánans Tonto?!

Ég hef talið mér trú um það að ég sé einn af þeim fáu sem voru yfir 12 ára aldri sem biðu verulega spenntir eftir og sáu Lone Ranger í bíó á frumsýningarhelginni. Miðað við viðtökurnar sem myndin fékk frá gagnrýnendum (Hlaut 37 /100 í Metascore) þá kom hún mér á óvart og fannst mér hún fjári góð skemmtun í anda Zorro myndanna en viðurkenni samt að hafa hugsað lítið meira um hana eftir það. Það er að segja, þar til ég rak augun í hana tveimur árum seinna og fékk óseilanlega löngun til að skella ræmunni í tækið til að gá hvort að þessi tvö ár hefðu gert henni eitthvað gott… Sannarlega, en ekki nóg með það, heldur var þetta allt annar pakki en mig minnti.
En yfir í annað.

lone2

Þegar talað er um stærstu harmleiki bandaríkjasögunnar er óhætt að minnast á fjöldamorð Bandaríkjamanna á frumbyggjum landsins, indjánunum. Aha, en hvernig í ósköpunum tengist þetta Disney-myndinni The Lone Ranger?
Þeir sem tóku hart á myndini við útgáfu voru duglegir að minnast á hvað hún væri dökk eða þunglyndisleg miðað við hverju þeir bjuggust við og að hún hafi verið markaðsett sem fjölskyldumynd frá stúdíói sem gefur aðeins út myndir í þeim flokki. Og afhverju í ósköpunum var hún svona löng?

Gore Verbinski leikstjóri myndarinnar er hvað þekktastur fyrir að leikstýrt sívinsælu Pirates of the Caribbean trílógíunni, og réttast væri að nefna að þriðja myndin í seríunni hafi verið dýrasta mynd sem Hollywood hafði sett í framleiðslu þegar hún kom út 2007. Verbinski fékk þá Johnny Depp (stjörnu trílógíunnar), Hans Zimmer (sem samdi tónlistina við myndir 2 og 3), heila friggátu fulla af peningum og var svo sagt „gerðu það aftur“.
Það þarf svo ekki að rýna vel í lokaafurðina svo augljóst sé að Disney fengu aðeins meira en þeir sömdu um.

En þrátt fyrir floppið og neikvæðu móttökurnar þá er ég nokkuð sannfærður um að The Lone Ranger sé ekki aðeins meðal bestu leiknu myndunum sem Disney hafa gert, heldur situr hún einnig í flokki bestu stórmynda 21. aldarinnar hingað til.

Jebb…

 

Buster Keaton Lifir!!

lone3

Gagnrýnendur fóru þó flestir rétt með að gefa leikurunum að mestu leiti einhver lof, eins og þeir áttu fyllilega skilið og það að gagnrýna ákvörðun Disney að fá Johnny Depp til að leika Tonto er í sjálfu sér gagnrýni á eitt stærsta vandamál Hollywood í dag, sem er að ráða hvíta leikara endurtekið í hlutverk sem eru í sjálfu sér ekki ætluð hvítum.

Hægt er að færa rök fyrir því að Disney hefðu aldrei samþykkt að gera myndina án eins stórrar stjörnu og Depp er en það sannar vandamálið bara enn frekar. En burtséð frá þessu þá er Depp alveg stórkostlega sannfærandi og brengluð Buster Keaton eftirherma hérna. Hann nær „slapstick“ líkamstjáningunni mjög vel og virðist skemmta sér hæfilega við að fara með kaldhæðnar og af og til þurrar setningar Tonto. Lúkkið hans er líka alveg svakalega kúl.

Það hjálpar líka að hann sé lang áhugaverðasti karakter myndarinnar. Tonto er ekki lengur bara hjálparhella heldur er hann settur á sama plan og titilhetjan með viðbættri, hryllilegri forsögu sem skildi hann eftir með lítið annað en hefnd í huga. Svo er hann hæfari á flestum sviðum en félagi sinn, sem eru einnig skemmtilegt hlutverkaskipti við gömlu útgáfuna.

Melankólían sem blundar í kjarna myndarinnar þræðist svo saman við fortíð þessarar uppfærslu á Tonto þannig að þemun smelli öll saman, en snert verður á þau aðeins seinna í greininni.

lone4

Depp nýtur sín samt tvímælanlaust í mest hasaratriðunum. Jafnvel þeir sem fíla ekki Pirates of the Caribbean myndirnar gætu aldrei neitað hæfaleika Verbinski að sviðsetja og láta stór hasaratriði flæða náttúrulega upp að fullkomnunarmarki (Sjáið lokaeinvígið í Dead Man‘s Chest).

Hérna hefur leikstjórinn aldrei verið betri. Hann er duglegur að vitna sjónrænt í klassíska vestra á borð við Once Upon A Time In The West og The Searchers á nokkrum stöðum, sem gerir einstöku kvikmyndatökuna bara bragðmeiri og lestaratriðin sem byrja og enda hasarinn í myndinni eru með því allra besta sem ræmur með þennan metnað og á þessum skala hafa boðið upp á… í það minnsta á þessum áratug (Mad Max er eiginlega eini alvarlegi samkeppnisaðilinn hingað til).

Seinna atriðið gerist á tveimur lestum og rennur í um 15 mínútur en Verbinski sér til þess að við missum aldrei athyglina af karakterunum og þeirra markmiðum þrátt fyrir að allir séu á stanslausri hreyfingu og tilkomumiklu tæknibrellurnar nái algjörum hápunkti.
(Svo sakar ekki að hafa William Tell marsinn í útgáfu Hans Zimmer sem undirspil í fullu fjöri)

 

Armie Hammer, andstæða kúrekaímyndin og (póstmdernísk?) saga Einfarans

lone5

Armie Hammer sem John Reid/The Lone Ranger er fullkominn mótspilari Depps, myndarlegur, hávaxinn, góðlyndur og alveg vonleysislega kössóttur karakter. Örkin hans í myndinni (þó ekki eins áhugaverð og hjá Tonto) er heldur engu síðri. Saga Reid er ekki týpíska breytingarsaga bókaorms yfir í hetju/kúreka-staðalímyndina sem fullkomnuð var af John Wayne á gullöld- vestranna heldur verður hann hetja algjörlega á sínum eigin forsendum. Honum er illa við byssur, en er samt tilbúinn að nota þær í brýnni nauðsyn og þá ekki sem drápstól. Og þótt lögin séu ekki lengur í fyrirrúmi („If men like him represent the law, I‘d rather be an outlaw“) þá heldur hann enn í sterku réttlætiskenndina og góðmennskuna sem er greinilega til staðar frá því við sjáum hann fyrst. Kannski mætti því segja að The Lone Ranger sé í raun orðinn fyrsta póstmóderníska kúrekahetjan? Kannski ekki í kvikmyndasögunni, en að minnsta kosti inní þeim ramma sem myndin skapar.

 

Hryllingur í villta vestrinu

lone6

„Mr Tonto, you mean they killed all of them? The Indians, the settlers, Dan.. for silver?

Önnur aðalástæða misgóðrar móttöku myndarinnar það sumar er án efa dökki tónninn. Eins og minnst var á áður eru mannætur, vitfirrtur indjáni og hörð gagnrýni á rotinn og rótgróinn kapítalisma nútíma bandaríkjamannsinns (einn vondi kallinn er mannæta) nokkuð skrýtið meginefnistak í 250 milljón dollara Disney myndar og endurgerðar af kúrekaþáttum frá fjórða áratugnum.

Verbinski gaf fólkinu kannski ekkert endilega þá útgáfu af bandarísku hetjusögunni sem það vildi heyra, en fyrir mér er kaldi sannleikurinn að Bandaríkin hafi aðallega verið sameinuð af blóðsúhellingum og spillingu en ekki bara hetjum og hugrekki, sem falinn er rétt undir yfirborðinu á fáránlegu slapstick fantasíunni, sá sem situr eftir.
Og þar liggur einnig snilldin í að ramma söguna þannig að Tonto sé að segja hana ungum strák (og á sama tíma, okkur) sem spyr svo í lokin:

„So..the Wendigo, nature out of balance, the masked man… it‘s all a story right? I mean, I know he‘s not real“
Sem Tonto gamli svarar:

„Up to you, Kemosabe“

lone7

Og þó að handritið sé ekkert að sykra sannleikan í kringum harmleikinn sem hrjáir sögu indjána í Bandaríkjunum, þá er það er heldur ekkert að mata okkur með honum á augljósan máta, sem verður að teljast plús í kladdan fyrir mynd af þessari stærð. Þannig þó að sögubækurnar hafi ávallt verið skrifaðar af sigurvegurum þá leyfir The Lone Ranger sér að vera djörf, pota í þá og segja „Engan hroka vinur, SVONA var þetta í alvörunni“ (með nokkrum viðbættum sprengingum og göldróttum hestum).

lone8En innan um öll lætin og melankólísku undirtónanna, þá er myndin fyrst og fremst einlæg… og í mínum augum er það einhver allra mikilvægasti og aðdáunarverðasti kostur sem nútíma stórmynd getur haft. Svo ef einhver spyr mig enn hvort að The Lone Ranger sé „heppnuð“ eða misheppnuð mynd, þá svara ég að mynd með þessa einlægni, þennan metnað og sannleikan að vopni muni aldrei teljast ósigur í kvikmyndasögunni.

Ég áfellist persónulega engan sem, í leit að hreinri ‘sumarmynda-‘ skemmtun segir pass við þessa ræmu, en þeir sem vilja aðeins meira djúsí sögusögn en er almennt að finna með öllum látunum í stórmynda-orgíum undanfarinna ára, leitið ei lengra.