“A universe without boundaries needs heroes without limits.”

Innan um öll framhöldin og myndir sem gerast í sama heimi er mjög hressandi að fá stóra fantasíu sem tengist akkúrat engu. Það er reyndar ekki alveg rétt þar sem myndin er byggð á frönsku teiknimyndablöðunum Valérian and Laureline eða nánar tiltekið sögunni Ambassador of the Shadows. Myndin kostaði um 210 milljónir dollara og er dýrasta franska mynd allra tíma. Það sést klárlega á skjánum þar sem hver rammi er troðfullur af litríkum tölvu- og tæknibrellum.

Það eru 200 tegundir af geimverum í þessari mynd og ímyndunaraflið er hreinlega hömlulaust eins og búast má við frá leikstjóra The Fifth Element. Þessi ótrúlegi heimur virkar hinsvegar misjafnlega vel. Friðsælu geimverurnar sem allt snýst um eru meira og minna Na’vi fólkið úr Avatar og litlu sætu verurnar sem þau nota ættu frekar heima í mynd um Kærleiksbirnina en blockbuster sumarmynd. Það er ýmislegt við þessa mynd sem minnti mig á Star Wars Episode 1-3, sem ætti að gefa ykkur hugmynd um hvernig heim við erum að díla við.

Mér fannst þessi mynd alveg þokkalega skemmtileg, en það var of mikið sem ekki gekk upp fyrir minn smekk. Dane DeHaan er góður leikari en mér fannst hann ekki passa í þetta hlutverk. Cara Delevingne var allt í lagi en ástarsamband hennar við persónu DeHaan var ekki sannfærandi. Húmorinn var líka ekki að smella. Horfið frekar aftur á Guardians of the Galaxy 2, ef það er það sem þið viljið. Á sama tíma er þetta mjög flott mynd með fullt af skemmtilegum hasaratriðum og frumlegum eiginleikum. Kannski vantaði bara Bruce Willis?

„I will find you and I will kill you.“

Leikstjóri: Luc Besson (Nikita, Léon, The Fifth Element, Lucy)