Heru Hilmarsdóttur þekkja flestir Íslendingar í dag eða ættu að gera þar sem þrátt fyrir ungan aldur er hún orðin ein af fremstu leikurum landsins.

Svo framarlega er hún komin að verkefnin erlendis frá eru orðin þó nokkur sem spanna bíómyndir sem og sjónvarpsþætti. Hún hefur sérstaklega náð að gera það gott í sjónvarpsþáttunum Da Vinci’s Demons og er væntanleg ásamt sjálfum Ben Kingsley í glæpamyndinni An Ordinary Man. Sú mynd er nýfarin í tökur og megum við eiga von á henni á næsta ári. Leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur er Brad Silberling (City of Angels, Moonlight Mile, 10 Items or Less).

Með margt á könnunni náði Hera náði þó að setjast niður og punkta niður Topp 5 listann sinn okkur og ábyggilega lesendum okkar til mikillar gleði. Leikkonan fær orðið:

,,Ég á rosalega erfitt með svona lista og tek þeim allt of alvarlega þar sem mér finnst ómögulegt að velja svona. Finnst maður líka verða að velja eitthvað annað en þeir sem hafa komið á undan upp á skemmtanagildi listans. Hef þó tekið mig saman í andlitinu og koma hér fimm titlar sem vill svo til að ég hef nýverið endurnýjað samband mitt við og hafa haft áhrif á mig á einhvern hátt í gegnum tíðina og mér dettur því fyrst í hug af svo mörgum góðum.“

Þá hefst talningin.

 

#5. BLUE IS THE WARMEST COLOR (2013) – Abdellatif Kechiche

BlueWarmestColour_2741575b

„Tel þessa sem eina af þeim myndum sem hafa komið út upp á síðkastið sem hafa náð sérlega til mín. Einnig í lengri kantinum. Finnst hún lýsa sálarlífi stelpna á þessum árum, frá unglingi yfir í unga konu, sérlega vel og hversu mikið ástin getur gjörsamlega tekið yfir mann þegar maður kynnist henni fyrst af öllu afli. Hugrökk i frasögn, þó að misvel hafi verið tekið i leiðirnar sem notaðar voru við gerð myndarinnar.“

 

#4. THE JERK (1979) – Carl Reiner

the-jerk

„Mér finnst hún bara svo fyndin. Þannig er það nú bara.“

 

#3. DEER HUNTER (1978) – Michael Cimino

106587_original

„Nefni hana sem dæmi um eina af þeim löngu góðu kvikmyndum sem tilheyra því tímabili sem gaf sér tíma i sögusagnir, með þeim afleiðingum að manni gefst færi á að kynnst persónunum algjörlega áður en dramað skellur á. Leikurinn afburða góður. Og sagan afar erfið. Horfði á hana síðast i fyrra. Fór gjörsamlega með mig. Alveg gjörsamlega.“

 

#2. THE TRUMAN SHOW (1998) – Peter Weir

TrumanShow_97361401645_6

„Þykir hugmyndin á bakvið hana rosaleg og tónlist Philip Glass gerir gott betra. Leikurinn góður og lúkkið og sagan enn og aftur sérlega góð. Hún kemur mér lika yfirleitt algjörlega að óvörum. Enda kramin i sófanum eftir eitthvað sem byrjaði svo fresh og næs í pastel litum.“

 

#1. ANNIE HALL (1977) – Woody Allen

anniehall-03

„Er mynd sem hefur fylgt mér einhvern veginn síðan ég var krakki og þykir alltaf jafn vænt, finnst sagan falleg, samband þeirra Annie og Alvy fallegt, og satt, og svo finnst mér hún mjög fyndin (þó hún sé smá sorgleg líka). Svona eins og lífið.“