Þórhall „Ladda“ Sigurðsson þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, enda fáir sem eiga eins glæstan og tilkomumikinn feril á sviði leiks, talsetninga og ekki síður grínleiks, sem í þessu tilfelli felur í sér heila flóru út af fyrir sig. Það sem ekki allir vita þó er að Laddi er gallharður kvikmyndaáhugamaður, með mikið dálæti á meisturum á borð við t.d. Stanley Kubrick, Ennio Morricone og Quentin Tarantino.

Bíóvefurinn hafði samband við leikarann og fékk aðeins að kanna hver (Topp-)Fimman hans væri.

 

A Clockwork Orange (1971) – Stanley Kubrick

„Ég sá þessa mynd þegar ég var um tvítugt, og hún hafði mjög mikil áhrif á mig. Mikið ofbeldi og svo er bara Malcolm McDowell alveg frábær í þessu hlutverki. Ég hafði bara ekki áður fyrr séð jafn frábæran leik.“

 

Cinema Paradiso (1988) – Giuseppe Tornatore

„Falleg mynd og falleg saga um vináttu gamals manns og litils drengs. Cinema Paradiso fer í gegnum allan tilfinningaskalann; alger táramynd, svo má ekki gleyma tónlist Ennio Morricone, sem gaf myndinni þennan sérstaka blæ.“

 

The Shining (1980) – Stanley Kubrick

„Hér höfum við Jack Nicholson í aðalhlutverki, mynd eftir sögu Stephen King og Stanley Kubrick leikstýrir, Þegar svona stórsnillingar leiða saman hesta sína þá þarf ekki að efast um gæðin. Frábær spennutryllir.“

 

The Godfather: Part II (1974) – Francis Ford Coppola

„Mér fannst allar þrjár Godfather-myndirnar góðar, en þessi stendur aðeins uppúr að mínu mati. Ég dýrkaði Brando og Pacino á þessum tíma.“

 

Inglourious Basterds (2009) – Quentin Tarantino

„Æðislega töff mynd, og mér fannst Christoph Waltz alveg brilljant, og Brad Pitt bara þrælgóður líka. Flott tónlist og flottur leikur.“