(Ath. það eru spoilerar í þessari grein fyrir Kickboxer myndirnar)

Fyrir þá sem kunna að meta Van Damme froður, sérstaklega þessar gömlu, þá er Kickboxer (1989) oft talin vera í uppáhaldi.

Persónulega er ég meiri Bloodsport maður en Kickboxer er pottþétt ein af betri Van Damme myndunum og þá má telja með JCVD (2008) og Bloodsport (1988). 1990‘s tímabilið færði okkur einnig aragrúu af Van Damme froðum en engar þeirra náðu þeim „hæðum“ sem 80‘s froðurnar náðu. Eins mikið og ég hef gaman af Double Impact (1991), Hard Target (1993), Street Fighter (1994), Timecop (1994) og Sudden Death (1995) þá er eitthvað við 80‘s hallærisleikann sem gefur eldri myndunum meira „kikk“ (hoho).

Næstum þrátíu árum síðar er tekin sú undarlega ákvörðun að endurgera Kickboxer, í þetta sinn undir nafninu Kickboxer: Vengeance og ekki bara sem eina kvikmynd heldur sem nýja kvikmyndakeðju enda eigum við von á næstu mynd 2017. Fyrsta Kickboxer fékk reyndar FJÖGUR framhöld frá 1991-1995 en ég hef aldrei nennt að horfa á þær. Svo spurningin er auðvitað, hvor er betri? Upprunalega eða endurgerðin og hvernig berast þær saman?

Söguþráðurinn í báðum myndum er nánast eins, með smávægilegum breytingum hér og þar. Upprunalega myndin er um bræðurna Eric og Kurt Sloane. Eric er heimsmeistari í kickboxing og Kurt (leikinn af Van Damme) er aðstoðarmaður hans. Þeir fara til Thailands til að keppast við þá bestu og lenda í illmenninu og kickboxing-meistaranum Tong Po sem sigrar Eric og lamar hann fyrir neðan mitti. Kurt verður alveg brjál og gerist nemandi Xian Chow í þeim tilgangi að sigra Tong Po.

Endurgerðin er bókstaflega eins nema í þeirri drepur Tong Po bróður hans í bardaganum og Van Damme leikur meistarann Durand í stað þess að leika Kurt Sloane. Svo vill til að leikarinn Darren Shahlavi sem leikur Eric Sloane í endurgerðinni lést í svefni í janúar 2015 á meðan tökum enn stóð. Allar helstu senur hans virðast hafa verið kláraðar áður en hann lést. Darren kom fram í Ip Man 2 (2010) og lék þar enska boxarann Twister. Í endurgerðinni er aðalhlutverkið Kurt Sloane leikið af Generic American Action Man með litla sem enga leikhæfileika, en sem betur fer hefur hann nóg af bardagahæfileikum til að bæta upp fyrir það. Svipað væri hægt að segja um Van Damme á sínum tíma, nema Van Damme hefur/hafði mun skemmtilegri skjápersónuleika. Það er eitthvað við þessar 80’s kvikmyndahetjur sem gátu varla talað ensku sem gerir þær mun fjörugri að horfa á.

Ég myndi ekki kalla frammistöðu Van Damme í fyrstu myndinni einhverja argandi snilld, en maðurinn reyndi að minnsta kosti sitt besta með efnið sem hann hafði. Hann smellpassaði í hlutverkið á sínum tíma, hafði unglegt sakleysi í andlitinu og brennandi áhuga á efninu, allavega kom hann þannig fram. Engan veginn er hægt að segja hið sama um leikinn hans í endurgerðinni. Hann felur sig alla myndina undir hatti og bakvið sólgleraugu, líkt og fíkill að reyna fela áhrif fíkninnar. Röddin hans er alveg ónýt og þrátt fyrir að vera í svakalega góðu formi miðað við aldur þá virkar hann bara daufur og áhugalaus. Frammistaða hans í bardögum er óaðfinnanleg eins og alltaf, en þegar hann reynir að leika illmenni (hann er þó ekki illmenni í endurgerðinni) eða “kúl” persónur þá nær hann því aldrei. Hann stóð sig frábærlega í að leika útgáfu af sjálfum sér í JCVD, maðurinn átti nánast óskarstilnefningu skilið fyrir hana, en þegar hann reynir við svona persónur þá virkar hann bara tilgerðarlegur. Svo í þessu samhengi þá sigrar ungi Van Damme klárlega þann eldri.

JCVD að fela sig bakvið sólgleraugu og hatt… alltaf.

JCVD að gráta

 

Það sem endurgerðin nær að gera betur en sú upprunalega er ekki margt. Sem svarar eiginlega spurningunni um hvor er betri, en það einungis tvennt sem ég fílaði meira við endurgerðina. Í fyrsta lagi fær Tong Po mun áhugaverðari túlkun í endurgerðinni, leikinn af Dave Bautista sem stendur sig andskoti vel sem illmennið sem fær aðeins meiri dýpt en í upprunalegu. Michel Qissi lék Tong Po í upprunalegu og virkaði vel en var aldrei neitt mikið meira en einhliða illmenni sem var illur „af því bara“. Svo er það lokabardaginn í endurgerðinni sem er betur skipulagður og talsvert raunsærri en í upprunalegu þar sem Tong Po verður skyndilega ömurlegur í miðjum bardaga og Van Damme sigrar hann auðveldlega. Endurgerðin gefur lokabardaganum talsvert meiri tíma, byggir upp spennuna betur og er í raun eini kaflinn í myndinni þar sem aðalpersónan, leikin af Generic American Action Man, fær aðeins að skína sem bardagamaður og leikari (ef það mætti telja hann leikara). Þeir missa sig heldur ekki í þeirri glötuðu klisju að illmennið geri eitthvað vont við stelpuna hans Kurt til að gefa honum meiri ástæðu að sigra hann. Það er alveg nóg að það sé búið að drepa eða lama bróður hans og endurgerðin dettur ekki í þann pakka, sem hún fær plús fyrir.

Michel Qissi að vera illur

Bautista er svalur andskoti

Generic American Action Man upp á sitt besta

Tónlistin í upprunalegu Kickboxer eftir Paul Hertzog var frábær og næstum jafn góð og tónlistin sem hann samdi fyrir Bloodsport. Því miður hætti maðurinn að semja fyrir kvikmyndir eftir Kickboxer en hann hefði auðveldlega geta átt sér glæsilegan feril í kvikmyndatónlist. Þar á móti er tónlistin í Kickboxer: Vengeance eins dæmigerð og hún verður fyrir nútíma hasarmyndir, ég man ekki eftir einum einasta tóni á meðan tónlistin eftir Hertzog situr í manni langt eftir áhorf. Þar á meðal er yndislegt val af 80’s tónlist í upprunalegri útgáfu sem bætir í fjörið… eða hallærið? kannski er það tvennt samtengt? Lög eins og Feelin’ So Good Today eftir Beau Williams gerir frægu “Van Damme fullur að dansa” senuna að algerri 80’s snilld. Hver saknar líka ekki að heyra lögin tala um tilfinningaástand aðalpersónunnar meðan hann gengur um einsamall að hugsa um framtíð sína? Mig grunar að Team America: World Police gæti hafa tekið Kickboxer á þetta í “Freedom isn’t free” senunni. Hinsvegar eru svo margar 80’s myndir sem gerðu þetta að það er úr nógu að velja úr sem hugsanleg dæmi.

Van Damme fullur.

Van Damme fullur að dansa.

Van Damme ennþá fullur.

Dennis Chan leikur Xian Chow í upprunalegu og annað en Van Damme í endurgerðinni þá blandar Chan góðum húmor í persónuna, sem gerir hann mjög skemmtilegan. Van Damme segir línurnar sínar sem Durand eins og honum dauðleiðist og vilji fara heim. Ég get trúað því að Van Damme hafi viljað leika öðruvísi persónu en Chan gerði, en að fela sig bakvið sólgleruaugu og hatt alla myndina gerði honum enga greiða. Mögulega fannst honum það gera persónuna svala og að meiri ráðgátu, en það gerir hann eiginlega bara leiðinlegan og óáhugaverðan. Chan er algerlega sigurvegarinn í þessari deild. Báðar útgáfur innihalda tilgangslausar ástarsögur, en þar sem fyrsta nær að skapa að minnsta kosti smá ást milli Van Damme og heitu stelpunnar ásamt því að gefa þeim ástæður til að fíla hvort annað, þá er ástarsagan í endurgerðinni eins slöpp og innihaldstóm og hún gerist. Við erum að tala um Anakin & Padmé í Attack of the Clones slæmt. Algerlega gagnslaust aukaplott sem gerir ekkert fyrir myndina og er neytt í söguna á mjög kjánalegan hátt.

Strippklúbbur stelur svo einni senu, ekki hægt að hafa 80’s mynd án strippklúbbs

Dennis Chan stelur senunni oftar en einu sinni

 

Kvikmyndastíllinn er frábrugðinn. Endurgerðin inniheldur aðeins of mikinn shaky cam stíl sem mér finnst ekki passa vel við söguna á meðan upprunalega heldur sig við ákveðnar og rólegar tökur sem segja söguna mun skýrar. Í því samhengi sigrar ungi Van Damme einnig. Endurgerðin má eiga það að hún hefur raunsærri bardagasenur en ekki endilega betri í kvikmyndalegu samhengi, svo mér sýnist það vera jafntefli milli unga og gamla Van Damme í þeirri deild. Niðurstaðan er fremur augljós – sem skemmtanagildi og betri kvikmynd þá sigrar ungi Van Damme auðveldlega. Endurgerðin er þó ásættanleg ræma og hefði geta verið talsvert verri, en við erum varla að tala um mynd sem er neitt betri en algert miðjumoð. Í stað 80’s hallærisins erum við með nútíma hallærið og það virkar misvel. Upprunalega Kickboxer er þrælskemmtileg og endurgerðin nær aldrei að endurskapa þann fíling. Hún heldur frekar daufum takti yfir alla myndina nema þegar Bautista er á skjá eða Van Damme fær að berjast. Þrátt fyrir að vera 55 ára við tökur á endurgerðinni þá er maðurinn ekkert verri en hann var fyrir þrátíu árum. Verð að gefa honum feitt kredit fyrir það.

Upprunalega á líka óviljandi hýrustu opnunar-kreditsenu sem hefur líklega sést í 80’s hasarmynd. Eric og Kurt Sloane sigla saman í litlum bát gegnum götum Siam borgar í Thailandi og fá blómvönd. Mjög erfitt að tísta ekki yfir þeirri senu.

Líkamsvessarnir úr Van Damme skvettast á einn af vondu köllunum og hann bragðar það af gleði. Allt voða Freudískt eitthvað…

Framundan má eiga von á Kickboxer: Retaliation (2017) sem mun ekki bara hafa Hafþór Júlíus sem bardagaskúrkinn heldur einnig Christopher Lambert sem peningaskúrkinn! Að vita það að Van Damme og Lambert verða saman í kvikmynd er nóg til að sannfæra mig að tjekka á henni, þó ég hafi ekki endilega miklar vonir um gæði myndarinnar. Í stuttu, Kickboxer (1989), þó hún sé engan vegin góð mynd, er þrælfjörug og hallærisleg 80’s froða. Endurgerðin, Kickboxer: Vengeance (2016), er fremur tilgangslaus endurgerð sem hefur eitthvað gott í sér en nær ekki að toppa upprunalegu þegar yfir heildina er litið.

Ég vona að Hollywood láti Bloodsport vera.