Stutta útgáfan: Kostulegir karakterar ásamt þéttu handriti gera þessa dökku tragí-komedíu að flottri viðbót við íslensku kvikmyndaflóruna.

 

Langa útgáfan:

Undir trénu er gaman-drama, eða tragí-komedía, eftir leikstjórann Hafstein Gunnar Sigurðsson. Hann gaf fyrst frá sér hina vanmetnu og æðislegu Á annan veg sem kom og fór árið 2011 án þess að margir tækju eftir. Vonandi gera áhorfendur ekki sömu mistök í þetta sinn. Huldar Breiðfjörð og Hafsteinn vinna aftur saman að handritinu, eins og þeir gerðu með París norðursins, og ná að spinna ferska sögu um nágrannaerjur og hversdagsleikastríðið sem myndast úr því.

Nánar sagt fjallar myndin um tvær mismunandi erjur. Atli (Steindi Jr.) er gómaður af konunni sinni, Agnesi (Lára Jóhanna Jónsdóttir), við að fróa sér yfir kynlífsmyndbandi með sér og annari konu. Honum er hent út í kjölfarið og neitað að sjá dóttur sína. Á sama tíma standa foreldar Atla í munnlegum átökum, að fyrstu, við nágranna sína vegna trés sem skyggir á pallinn þeirra síðarnefndu.

Siggi Sigurjóns og Edda Björgvins fara með hlutverk foreldra Atla. Þorsteinn Bachmann og Selma Björns fylla svo út leikaraliðið sem nágrannarnir þeirra. Eins og sést í upptalningunni er hér um gífurlega flottan leikarahóp að ræða.

Margir hafa beðið spenntir eftir því að sjá hvernig Steinþór Hróar Steinþórsson, eða Steindi Jr, tæklar sitt fyrsta stóra hlutverk í kvikmynd, ansi alvarlegu þar að auki. Stendur hann sig nokkuð prýðilega og það væri erfitt að sjá einhvern annan fyrir sér í hlutverkinu. Hann hverfur þó ekki alveg í hlutverkið en á sér góða spretti, einkum þegar kemur að sívaxandi pirringi og óhjákvæmilegum reiðisköstum. Senurnar hans með Eddu standa einnig upp úr. Raunar stendur allt með Eddu upp úr. Hún fer létt með að stela hverri einustu senu sem hún er í, hvort sem það er að hreyta orðum í “hjólreiðamelluna” eða fara með borðbæn í óþægilegu afmælismatarboði. Karakter hennar, Inga, getur verið ansi ýkt en Edda gerir henni góð skil svo við skiljum hvaðan hegðun hennar og ákvarðanir koma. Selma Björnsdóttir er síðan fullkomið val fyrir hjólreiðamelluna svokölluðu og Þorsteinn Bachmann bætir allt sem hann kemur að.

Eitt besta við myndina er afstöðuleysi Hafsteins og Huldars gagnvart persónum sínum. Það er enginn mikið viðkunnanlegri en næsti. Alveg eins og í raunveruleikanum eru þau öll á sínu gráa svæði og finnum við því til með þeim þrátt fyrir skrípaleikinn sem þau koma sér í.

Margar myndir bera þann ókost að vera allt of lengi að komast á skrið. Undir Trénu passar sig á þessu en hrekkur þar af leiðandi aðeins of fljótt í gang. Það er varla liðin mínúta áður en Agnes rekur Atla úr íbúðinni þeirra. Það hefði verið kærkomið að fá örlítið meira um samband þeirra og heimilislíf, sérstaklega þegar kemur að persónuörk Agnesar en hún er með minnstu dýpt aðalleikaranna. Almennt séð flæðir myndin þó vel og stillir sér hægt og rólega upp í magnaðan lokasprett. Það kæmi þessum penna lítið á óvart ef handritið hefði verið byggt kringum endinn, ef ekki bara fullkomna lokaskotið sem jaðrar við níhilisma, allt saman þó á mjög hlægilegan hátt.

Þetta er mynd sem ætti að þóknast stórum áhorfendahópi. Það dúkka líklegast upp umræður í hvaða flokk myndin á heima í. Sumir gætu talið hana drama út í gegn en undirritaður hló allavega ófáum sinnum. Hafsteinn á auðvelt með að finna grínið í annars þyngri mómentum sem heldur myndinni skemmtilegri út í gegn án þess að draga neitt úr alvarleika málanna. Frumraun Hafsteins er enn besta myndin hans en það er alveg klárt mál að þetta er leikstjóri sem þarf að fylgjast með.