“Lífið er stríð og heimilið vígvöllur.”

Undir trénu er þriðja kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar og að mínu mati hans besta til þessa. Þetta er dramatísk gamanmynd sem tæklar mjög alvarleg málefni en þó er alltaf stutt í grínið. Húmorinn er í svartari kantinum eins og Íslendingar vilja hafa hann. Nágrannaerjur eru þungamiðjan í sögunni en það er líka farið út í hluti eins og hjónaskilnað, fráfalll fjölskyldumeðlims og andleg veikindi. Þetta hljómar allt voðalega þungt og erfitt en það er það alls ekki. Það er alltaf stutt í næsta brandara sem virkar oftar en ekki mjög vel.

Leikarar standa sig almennt vel en Edda Björgvins og Siggi Sigurjóns standa upp úr. Edda er virkilega frábær, spýtandi fúkyrðum með ískaldri störu. Siggi er rosalega traustur leikari, einn af okkar bestu, hann sýnir hér sínar bestu hliðar. Steindi kom mér svo á óvart, hann getur alveg verið alvarlegur þegar hann þarf á því að halda.

Þessi mynd er mjög skemmtileg en rennur þægilega í gegn á 90 mínútum með mjög flottri tónlist frá Daníel Bjarnasyni. Það voru einhverjir lausir endar sem ég hefði viljað vita meira um, eins og týndi bróðirinn. Einnig hverfur persóna Selmu Björns meira eða minna á lokametrunum. Þetta eru samt smáatriði og allt í allt er þetta mjög sterk mynd hjá Hafsteini. Það verður spennandi að sjá hvað hann gerir næst. Sjáið þessa endilega í bíó.

“Það eru bara drullosokkar sem halda framhjá.”

 

Leikstjóri: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson (Á annan veg, París norðursins)