Einu sinni var sú tíð þar sem ofurhetjumyndir fundust ekki á hverju strái. Í dag er þetta það helsta sem stóru stúdíóin eyða púðri í og hafa margir kvikmyndaáhugamenn deilt um það hvort hið svokallaða „superhero fatigue“ (þ.e. ofurhetjuþreyta) sé byrjað að gerjast hjá almenningi. Skiljanlega kannski, hversu oft getum við fylgst með ósigrandi persónum komast hjá því að deyja eða stórborgir að rústast án þess að það verði orðið einhæft?

Svo eru vissulega til einhverjir sem barasta fíla ekki ofurhetjumyndir, punktur. Á Facebook-síðunni Bíófíklar sendum við þess vegna út fyrirspurn til fólks um að nefna hvaða slíkum myndum mælt er með handa fólki sem venjulega er ekki hrifið af geiranum. Niðurstöður komu streymandi inn en örfáir titlar komu reglulega upp. Sjáum hverjir þeir eru:

 

Hér eru fimm ofurhetjumyndir sem mælt er með handa þér

…ef þú ert þ.e.a.s. ekki venjulega hrifin/n af ofurhetjumyndum

 

5. SUPER (2010)

Ódýrari (og á marga vegu enn súrari og meira brútal) útgáfa af Kick-Ass. James Gunn sleppir sér aðeins lausum með villtri sögu um eymingja sem ákveður að klæða sig upp sem ofurhetja, með kómískum og hálf tragískum árangri í senn.

Rainn Wilson fer á kostum og kemur Ellen Page þarna lífleg inn líka. Super er alls ekki allra, en hún gæti vel talað til fólks sem kann illa við myndir um fólk með ofurkrafta. Hér er nefnilega ekkert slíkt í boði.

 

4. KICK-ASS (2010)

Matthew Vaughn kom mörgum á óvart þegar hann mætti með þessa óvæntu litlu og vel flippuðu svörtu gamanmynd þar sem skrautlegar hetjur taka allan forgrunn.

Í Kick-Ass er bæði ætlast til að áhorfandinn reki upp hnefann í loftið yfir yfirdrifna ofbeldinu en á sama tíma hneykslast pínu yfir því. Í þessu handriti er farið út í þær afleiðingar sem það hefur í för með sér að klæðast í þrönga búninga og slást við bófa – það getur víst verið fokkin’ sárt ! Bætið síðan inn Nic Cage í banastuði (með þrælfyndna Adam West takta) og þá er komin ávísun á góða afþreyingu.

Sumir á Facebook vildu meina að Kick-Ass 2 ætti einnig erindi inn á þennan lista en gæði hennar eru vægast sagt umdeild af megni fólks.

 

3. WATCHMEN (2009)

Þegar Alan Moore skrifaði Watchmen-söguna vildi hann snúa út úr helstu formúlum sem fylgja svona sögum. Hann bætti við pólitískum þráðum/tengingum og sýndi því meiri áhuga hvað það raunverulega gerir við fólk andlega að setja á sig skikkjur og hvernig samfélagið tæki í grímuklæddar hetjur sem sinna sínu eigin löggjafavaldi.

Þegar Zack Snyder ákvað svo að flytja þessa sígildu teiknuðu skáldsögu í kvikmyndaform var alveg ljóst að hún myndi ekki hitta í mark hjá hverjum sem er. Myndin hefur sambærilegan glans og brelludýrð á við flestar stúdíó-hasarblaðamyndir en er almennt mun grófari, hægari, grimmari og almennt meira niðurdrepandi heldur en þær eru flestar. Hetjurnar eru flestar skemmdar og heimurinn sem þær tilheyra enn meira svo. Myndin er algjört konfekt fyrir augun og hefur starfandi heila líka, sem því miður er mjög sjaldan hægt að segja um aðrar myndir frá Snyder.

 

2. DEADPOOL (2016)

Auðvitað. Ef maður hefur húmor fyrir ruglinu í þessum titilkarakter – sem elskar fátt meira en að benda á klisjur og ofurhetjuformúlur – þá er mikið stuð að finna í þessari ræmu.

Myndin sló allsvakalega í gegn fyrir cirka ári síðan og kom eins og ferskur vindblær innan um geira sem var farinn að margendurtaka sig. Deadpool er ekki bara einn stór djókur, heldur vægðalaus og kjaftforari myndasögumynd en þær eru flestar. Fínt meðal fyrir alla sem eru orðnir langþreyttir á Disney-Marvel’inu.

 

1. UNBREAKABLE (2000)

Þessi bar tvímælalaust af í upptalningunni, enda skiljanlegt að hún eigi fullkomið erindi inn á svona lista. Lágstemmd, mannleg, öðruvísi og í rauninni hálfgerð and-ofurhetjumynd, sem á sama tíma fagnar ýmsum hefðum og klisjum myndasagna með ferskum snúningi. Umdeilanlega er þetta það besta sem situr á ferilskrá leikstjórans M. Night Shyamalan. Hvað sem það nú segir.

 

Aðrar myndir sem fólk valdi:

Iron Man (2008)
Blade (1998)
Chronicle (2012)
Guardians of the Galaxy (2014)
V for Vendetta (2006)

 

Finnst þér eitthvað vanta inná listann? Endilega láttu í þér heyra.