Stutta útgáfan: Fátt um bregðuskot og hræðslu sem smitast yfir á áhorfandann en mikið af ónotalegum tilfinningum og sannfærandi krafti þökk sé góðu leikaraliði og kvikmyndatöku. Gott Það.

 

Langa útgáfan:

Það hefur komið mörgum á óvart hversu góð einmitt myndin um „Það“ er. Stephen King sagði sjálfur að hann var ekki undir það búinn að myndin væri svona góð. Hér er um aðeins meira að ræða en klisjukennda bregðumynd með c-leikaraliði og óhuggulegu illmenni.

Hér er mynd með sterku leikaraliði (og það nánast allt undir lögaldri), með athygli á smáatriðunum og vel gerðum og tímasettri kvikmyndatöku. Hún lifir ekki á ógeðslegum viðbjóði (þó nóg sé af slíku) eða ódýrum bregðum. Heldur er áherslan á skuggamyndir, teygja þessa ónotalegu tilfinningu um að eitthvað sé að fara að gerast og að illmenni lifa á meðal vor í raunveruleikanum…. og nei ég er ekki að tala um brosandi kvikyndið.

Í þessari nýju aðlögun gerist myndin á 9. áratugnum í smábænum Derry í Maine. Um er að ræða lítinn smábæ þar sem meðaltal mannshvarfa er sexfalt miðað við á landsvísu í Bandaríkjunum og enn hærri þegar kemur að börnum. Samt býr fólk þarna….. enda sá eini sem virðist vita þetta er nýji strákurinn í bænum…..óskiljanlegt. Í þessum bæ býr barnahópur lúða sem fá að kenna á því frá öðrum þar sem um er að ræða gróft ofbeldi, kynferðisofbeldi, slæmt uppeldi og fordóma. Þrátt fyrir erfiðleika standa þau saman og reyna að horfa á heiminn með björtum augum, en fyrst þarf að kála trúðinum sem gerir líf þeirra enn verra.

Ég fór á þessa mynd með litlar vonir um að verða hrædd þar sem ég hafði séð Tim Curry útgáfuna og vissi hverju ég mátti eiga von á. Eitthvað hefur liðið síðan ég sá gömlu „myndirnar“ þar sem upphafsatriði náði athygli minni og áhuga. Það sem eftir leið myndarinnar sat ég afar slök, brá (næstum) ekkert en eftir á hyggja dáist ég að því hvernig myndin náði að láta mér líða ömurlega í tæpa tvo tíma þar sem spennan og hryllingurinn var að fara með mig. Tvö ógeðfelld atriði gætu hafað fengið undirritaða til að kippast til.

Bill Skarsgård hefur náð að festa sig í sessi sem hinn illgjarni Pennywise með hrollvekjandi brosi sínu en án krakkaskara til að hræða og ógna væri myndin ekki eins vel heppnuð. Það sem meira er þá þarf krakkaskarinn að vera trúanlegur og vel leikinn til að draga áhorfandann með sér inn í myndina og litlausa tilveru þeirra og það tekst. Næstum hver persóna fær samúð okkar á einhverjum tímapunkti, sumir meira en aðrir.

Sá eini sem ég náði ekki tengingu við var grínarinn Richie (sem leikinn er af Stranger Things krakkanum) en skella má skuldinni á handritið þar. Hann er orðheppinn og rífur sífellt kjaft en hann fær of mikinn tíma og of margar línur til þess. Meira að segja hinar persónurnar verða pirraðar á þessu. Hann er haldinn einum stærsta galla myndarinnar sem telst eiginlega sem leiðinlegur ávani er að hún drepur spennuna á köflum. Um leið og við erum að upplifa eitthvað óþægilegt eða ógeðslega vont þá er sagður brandari til að létta á andrúmsloftinu. Þetta hefði myndin alveg mátt minnka enda erum við að ræða um hrollvekju, ekki gamanmynd með léttum hryllingi.

Þrátt fyrir þennan galla er myndin fínasta afþreying og nær svo sannarlega að grafa fyrri útgáfu hennar og vekja tilhlökkun til framhaldsins. Þið verðið ef til vill ekkert hræddari við trúða eftir að hafa séð þessa en púlsinn mun hækka við áhorfið. Eða ótti við stífluð niðurföll.