Það eru ekki margar ‘nördamyndir’ þarna úti sem sitja með 87% á Rotten Tomatoes og jafnframt hataðar sterkt af stærsta markhópi sínum. Star Trek Into Darkness gekk fínt í aðsókn sumarið 2013 og kætti marga í leit að hraðskreiðri, tveggja klukkustunda ljósasýningu en Trekkarar hafa ekki farið leynt með óánægju sína gagnvart myndinni og ekki síður J.J. Abrams fyrir sumar ákvarðanirnar sem hann tók varðandi illmenni myndarinnar.

Á Star Trek-ráðstefnu í Vegas fyrir tveimur árum kusu aðdáendurnir Into Darkness sem verstu myndina í röðinni, og eru það alls engin lítil orð þegar gæðakvarðinn er skoðaður á myndum eins og Star Trek: The Final Frontier, Insurrection og Nemesis.

star_trek_into_darkness_001

J.J. Abrams, sem er nýbúinn að ganga frá lokaklippi sínu á The Force Awakens, var í hlýju nördaspjalli við Stephen Colbert þegar upp kom umræðan um Into Darkness og nostalgíudýrkun hennar gagnvart myndinni The Wrath of Khan.

„Við komumst í klandur með seinni myndina á meðal aðdáenda. Það voru allt of margar tilvísanir í The Wrath of Khan. Ég tek það á mig,“ sagði hann við Colbert.

Abrams verður enn framleiðandi á nýju Star Trek-seríunni og er sett dagsetning á þriðju myndinni, Star Trek Beyond, þann 22. júlí á næsta ári. Justin Lin (Fast & Furious 3-6) sér um að leikstýra henni.