Ég sá á sínum tíma einhver brot úr þessum myndum en ég mundi nánast ekki neitt. Ég vissi því ekki alveg við hverju ég átti að búast við frá þessari seríu. Mér finnst reyndar svolítið fyndið að þetta eru mjög virtar myndir sem fólk talar um sem frábærar myndir en fólk virðist samt ekki hafa mikinn áhuga á að horfa á þær af því að þeir eiga að vera mjög þungar. Og þær eru það að mestu leyti. Litirnir þrír eru auðvitað fánalitir Frakka og blái liturinn táknar frelsi.

Fyrsta myndin fjallar um konu sem missir eiginmann og dóttur í bílslysi og lokar sig frá umheiminum í kjölfarið. Hún neyðist hinsvegar til að loka búinu og ganga frá lausum endum og grefur upp óvænt leyndarmál. Orðið frelsi þykir vísa til frelsis aðalpersónunnar eða frelsi hennar til að velja nýtt líf eða einangrun.

Þessi mynd er talsvert þung, enda fjallar hún um sorg. Hún er frábærlega leikin, ekki síst af Juliette Binoche sem fer með aðalhlutverkið. Tónlist er notuð á mjög skemmtilegan hátt og það eru faldar myndlíkingar í öllum hornum. Þetta er klárlega góð mynd, hún er vönduð og flott að öllu leyti. Mér fannst samt bara of lítið gerast, sagan var of hæg fyrir mig en ég kann samt að meta vönduð vinnubrögð frá föllnum meistara.

„Now I have only one thing left to do: nothing. I don’t want any belongings, any memories. No friends, no love. Those are all traps.“

Leikstjóri: Krzysztof Kieslowski