“No hammer. No problem.”

Ég fór á Thor: Ragnarok með nokkuð miklar væntingar. Myndin er núna á lista imdb yfir bestu myndir allra tíma (nr. 183) og ég hafði heyrt henni lýst sem fyndnustu Marvel myndinni til þessa. Það var ekki alveg mín upplifun. Þetta er skemmtileg poppkorn-mynd en ég man ekki eftir að hafa hlegið upphátt. Ég gerði það hinsvegar ítrekað á Guardians of the Galaxy 2. Kannski er skýringin munur á menningarheimum en húmorinn í þeirri síðarnefndu er nokkuð svartur sem passar vel við geð okkar Íslendinga.

Ég hafði mjög gaman af 70’s Flash Gordon stemningunni en mér fannst eitthvað við tóninn vera off. Bestu ofurhetjumyndirnar eru alltaf svolítið alvarlegar, meira að segja fyrsta Avengers var dramatísk. Þessi er svo létt að maður hefur engar áhyggjur af afleiðingum eða örlögum persónanna. Myndin er heldur ekki eins epísk og titillinn bendir til þó svo að vissulega gerist stórir hlutir.

Fyrstu tvær myndirnar um þrumuguðinn voru nokkuð vel heppnaðar en ég hef á tilfinningunni að það sé hægt að gera enn betur. Ég var að vona að þessi myndi stinga hinar tvær af en það varð ekki alveg raunin. Þrátt fyrir það er þetta flott afþreying, sérstaklega fyrir yngri kynslóðina en ég bind vonir við að Black Panther og Avengers: Infinity War verði talsvert betri.

“A creepy old man cut my hair off!”

Leikstjóri: Taika Waititi (What We Do In the Shadows, Hunt For the Wilderpeople)