“Courage is immortal.”

Þar sem þriðja Thor myndin er komin í bíó er tilvalið að rifja upp þær fyrstu. Það eru skiptar skoðanir um fyrstu myndina en hún er betri en margir muna eftir. Það hefur verið mjög erfitt verkefni að færa þessa hálf kjánalegu persónur á hvíta tjaldið (ekki ólíkt Wonder Woman) en Kenneth Branagh á mikinn heiður skilið fyrir að setja saman þennan heim á sannfærandi hátt.

Myndin er meira og minna klassísk “fish out of water” saga og hún gerir talsvert grín að sjálfri sér. Chris Hemsworth buffaði sig upp í hlutverk þrumuguðsins og Tom Hiddleston létti sig til að endurspegla beittan persónuleika Loka. Það var sterkur leikur að fá Anthony Hopkins í hlutverk Óðins en leikararnir eru einmitt einn helsti styrkur myndarinnar. Til viðbótar við þessa þrjá fáum við Idris Elba, Natalie Portman, Stellan Skarsgård og Rene Russo. Ekki slæmur hópur það.

Mér finnst gaman að sjá hvernig persónan Þór var þróuð í gegnum þessar myndir. Í þessari er hann mjög hrokafullur og óreyndur en smám saman breytist hann í vel klippta töffarann sem við fáum í þriðju myndinni. Loki er auk þess ein besta persóna Marvel heimsins og ferðalag hans byrjar hér. Til að sjá heildarmyndina er nauðsynlegt að rifja upp sögu guðanna frá upphafi.

“You know, for a crazy homeless person… he’s pretty cut.”

Leikstjóri: Kenneth Branagh (Henry V, Hamlet, Cinderella)