Leikarinn og rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson er á fullu þessa dagana að vinna í sjónvarpsþáttaröð sem byggð verður á ævintýrabókinni hans, Þín eigin þjóðsaga. Þetta tilkynnti Ævar í viðtali við Morgunblaðið í dag og segir leikarinn á Facebook-síðu sinni að þættirnir verða „í anda Lemony Snicket og Tim Burton“ og bætir hann við að áhorfendur ráði hvað gerist í framvindunni.

Sögusvið Þinnar eigin þjóðsögu er heimur íslensku þjóðsagnanna. Bókin er skrifuð í annarri persónu og byggð þannig upp að lesandinn stjórnar ferðinni; hann getur rekist á hafmeyjur, Lagarfljótsorminn, gömlu jólasveinanna, Sæmund fróða, Djáknann á Myrká, Jón Árnason eða jafnvel tröll.

„Það verða mismunandi endar á hverjum þætti,“ segir Ævar kátur þegar spurður hvernig aðlögunarferlið færi fram á sögu með svona sérstakan strúktúr. „Alveg eins og með bækurnar, þá er það ekki okkur að kenna ef þátturinn endar illa.“

Þættirnir verða gerðir í samstarfi við RÚV og kvikmyndagerðarmanninn Guðna Líndal Benediktsson, bróður Ævars, og Fenrir Films. Áætlað er að það verði 6 þættir gerðir.

Eins og sjá má á Fésbókinni hans Ævars er kappinn mjög spenntur fyrir þessu öllu. Við erum það líka.

Ef þið hafið annars áhuga á því að kynnast kvikmyndasmekk Ævars, þá bendum við á Fimmuna hans.