Morgan Freeman er ekki beinlínis hlutlaus þegar kemur að því að meta hvort næsta Batman-túlkun eigi eftir að hitta í mark eða ekki, enda er Freeman flestum kunnugur (m.a.) sem Lucius Fox úr Dark Knight-þríleiknum frá Chris Nolan.

Freeman var í viðtali við ET Online til að kynna hasarræmuna London Has Fallen þegar hann var spurður um hvað honum findist um að sjá nýjan leikara taka að sér hlutverkið svona stuttu eftir að Christian Bale klæddist búningnum.

„Veistu, samgleðst Ben [Affleck] en ég hef ekki hugmynd um hvort þetta eigi eftir að ganga upp,“ svarar Freeman og segir að The Dark Knight hafi verið algjörlega „it“, þ.e.a.s. besta túlkunin á karakternum sem við höfum. „Og sástu Batman Begins?,“ bætir hann við, „ég held að það sé engin leið til að toppa þetta.“

Batman-V-Superman-Trailer-Kryptonite-Armor-Fire

Áhorfendur og Batman-aðdáendur um allan heim fá að sjá hvernig Batfleck stendur sig eftir þrjár vikur. Batman v Superman: Dawn of Justice lendir 23. mars.