Að spyrja að þessu er eins og að spyrja hörðustu kvikmyndaáhugamenn hvort að The Godfather eða The Godfather Part II sé sterkari myndin. Það er enginn að fara segja The Godfather Part III, alveg eins og enginn myndi segja Terminator 3: Rise of the Machines, einhver alversta kvikmynd mannkynssögunnar, sem ég hef hatað síðan júlí 2003. Að bera saman T3 við T2 er eins og að bera saman Baby Geniuses við The Shawshank Redemption, en að bera saman T2 við T1 er allt önnur saga.

Að spyrja hvor myndin sé betri, T1 eða T2 er eins og spyrja hvor af fyrri Alien-myndunum sé betri. Hver og einn hefur sitt álit á þessu og margir rífast um það þrátt fyrir að vera algerlega sammála að báðar myndirnar séu stórkostlegar. Ég myndi segja að gæðamunurinn milli þessa mynda sé innan við eitt prósentustig, en ein þeirra að mínu mati toppar hina naumlega – munar varla hársbreidd.

James Cameron er merkilegur mannfjandi, hann er víst ömurlegur til að vinna með og fer illa með fólkið undir sér. Hins vegar er hann, eða að minnsta kosti var, alger brautryðjandi í kvikmyndagerð og mun ávallt eiga sér sess í musteri kvikmynda. T1, Aliens, The Abyss, T2, True Lies og Titanic hafa allar stórkostlega hluti í sér sem gerir þær eftirminnanlegar, það má þó deila um handrits-innihaldið í sumum þessum myndum. Avatar að mínu mati er varla þess virði að tala um; ómerkilegri Cameron-mynd finnst ekki (ég tel Piranha II: The Spawning með) og nú ætlar hann að eyða restina af ævinni í að gera Avatar framhöld sem enginn, eða allavega enginn sem ég þekki, vil sjá eða bað um.

Ég vona innilega að Cameron taki skref til baka og hætti þessari CGI ofnotkun, því sama hversu mikinn pening það eftir að dæla í þesar framhaldsmyndir þá mun engin þeirra líta jafn vel út og Terminator 2: Judgments Day, sem að mínu mati er toppurinn á framleiðslugæðum í kvikmyndagerð almennt og mun eldast eins og besta vínið, annað en Avatar myndirnar. Jafnvel tölvubrellurnar, þær fáu sem eru í myndinni eru betri en í Avatar. Hver einasta brella selst, hvert einasta skot virkar fullkomlega og Stan Winston bætir í lúkkið fáranlega mikið með véldúkkunum.

T2 kemur út á tímabili þegar kvikmyndir voru uppá sitt besta þegar að útliti kemur, að mati höfundar. Þegar myndir voru teknar upp á filmu, tölvubrellur voru takmarkaðar og þar með notaðar til að fylla inn í frekar en að taka yfir heilu atriðin. Kvikmyndagerðamenn þurftu að reiða sig á módel og brellur á tökustöðum og það breytir miklu fyrir „fílið og lúkkið“. Termintor 2: Judgment Day kemur út á nákvæmlega réttum tíma og horfandi á hana í dag, þá er eins og myndin yngist frekar en eldist. Þessar Marvel/DC og flestar nútíma CGI orgíur (þar á meðal Avatar) mega einfaldlega fokka sér í samanburði við T2, þegar að þessu kemur.

T2 er einnig almennt talin vera besta Terminator myndin, IMDb einkunnir gefa það einnig sterklega í skyn og ég var lengi sammála því. Þar til að á einu köldu Jólakvöldi í Desember 2013, þá ákvað ég voða skyndilega að horfa aftur á Terminator myndirnar allar, þar sem ég hafði ekki séð þær lengi. Enn og aftur þá sá ég það móðgandi stórslys sem var T3, ég hata hana jafnvel meira en Terminator Genisys, það er mikið sagt. Terminator: Salvation er miðjumoðsræma, margt fínt í henni en nær aldrei lofti. Terminator 2: Judgment Day er framleiðslulega séð meistaraverk og toppar þá fyrstu algerlega í þeirri deild, en betri framleiðslugæði þýðir ekki endilega betri mynd.

Ég var Terminator aðdáðandi í bernsku, margir félagar mínir einnig (og kannski allir í heiminum?). Ég veit hins vegar að margir á mínum aldri voru T2 aðdáðendur og sáu ekki þá fyrstu fyrr en mun seinna á ævinni, ég sá þær þó í réttri röð og var líklega of ungur til þess. Mín niðurstaða var skýr, sem kvikmynd þá er The Terminator (1984) betri myndin, en þegar ég segi betri mynd þá er ég að tala um svona 0,5-1% betri, varla mælanlegt. Svo þetta er engin vegin diss grein á T2, þetta er heiðarleg lýsing á þróun „persónu-örk“ minnar varðandi Terminator kvikmyndirnar.

T2 er í eðli sínu endurgerð á T1, þetta var tilraun Cameron’s að gera það sem hann upprunalega vildi gera. Til dæmis þá var upprunalegi endinn á T1, innrásin á Cyberdine sem var svo gert í T2. The Terminator (1984) var eins lág í fjármagni og svona myndir urðu á sínum tíma. Þar af leiðandi eldist hún ekki jafn vel í framleiðslu, ýmsar brellur, þá sérstaklega stop motion brellur eru augljósar og Stan Winston véldúkkurnar eru sum staðar tæpar á því.

Tónlistin eftir Brad Fiedel angrar einnig marga fyrir að vera alltof mikið ’80s synth, og það er erfitt að neita því að tónlistin sé barn síns tíma. Fyrir mitt leiti þá finnst mér soundtrakkið í báðum T1 og T2 vera frábært, ég er mikið fyrir synth í kvikmyndum þegar vel gert og Brad Fiedel kann að nota það. Það er mikilvægt að hafa það í huga að T1 var framleidd undir margfalt erfiðari aðstæðum en T2, með mun minni stuðning, pening og tíma og auðvitað bitnar það á framleiðslunni á einhvern hátt. Ég hef bilað mikla virðingu fyrir hvað JC náði að gera miðað við fjármagn og aðstæður, meistaralega gert hjá honum.

T1 er næstum því eins og Cannon Films Group kvikmynd aðeins í þetta sinn með almennilegan leikstjóra sem veit hvað hann er að gera, á nánast allan hátt væri hægt að kalla T1, trashy, ’80s, sci-fi, B-hasarmynd. Rökfræðin bakvið myndina og reyndar allar myndirnar, allavega í raunsæum skilningi er mjög tæpur. T.d. af hverju þarf vélmenni sem getur kramið höfuð á manneskju innan við sekúndu að finna sér vopnabúr til að drepa einhvern? Þarf vélmennið að láta morðin líta út fyrir að vera verk þjófa eða morðingja? Þetta er t.d eitthvað sem T2 gerir betur, T-1000 gengur ekki inn í vopnabúð sem betur fer.

Hins vegar selur JC söguna með handritinu, hann tekur þá vitulega stefnu að halda sögunni stanslaust gangandi, ekki ein sena né eitt einasta skot hægir á framvindunni. Þar af leiðandi hefur áhorfandi ekki mikinn tíma til að greina öll smáatriðin og hugsanlega galla. T1 hefur þann plús yfir T2, betra flæði í sögunni og meiri fókus á kjarnahóp persónanna, aðallega Connor og Reese.

Það sem T1 hefur einnig klárlega yfir T2 er talsvert myrkari sýn í framtíðina. Hver einasta sena sem gerist í framtíðinni í fyrstu myndinni sýnir vonleysið, eymdina og eyðileggingu heimsins á niðurdrepandi og áhrifaríkan hátt, T2 gerði svipað, en áhrifin voru ekki jafn sterk. Framtíðarsenurnar eru þó klárlega betur framleiddar í T2 en T1 er grimmari og skilur mann eftir með mjög efins hugmyndir um framtíðina. Svo mun ekkert toppa það að hafa Arnold leika miskunnarlaust drápsvélmenni, eins gaman það er að sjá hann sem góða vélmennið að leika pabba John Connor’s. T-800 rísandi úr eldinum til að drepa Sarah og Kyle hræddi úr mér líftóruna á sínum tíma, meira svo en T-1000 nokkurn tíman gerði í T2. Sem framhaldsmynd hins vegar þá er varla hægt að biðja um neitt betra en T2, þrátt fyrir að vera nánast sama mynd aftur þá er hann að riffa efnið á sniðugan hátt og það virkar vel, en ekki fullkomlega að mati höfundar. Framleiðslulega séð er niðurstaðan skýr, T2 sigrar án vafa.

Endanlega er þetta spurning um smekk, mér finnst T1 vera áhrifaríkari í sínu formi, T2 þjáist aðeins af því sem ég get einungis kallað „Hollywood væmni“. Strákurinn og vélmennið eru orðnir bestu vinir, virkar, en samt, ég er tæpur með það. Ég myndi jafnvel ganga það langt að segja að T1 sé nokkuð vanmetin mynd og hefur drukknað í skugga T2, en það er skiljanlegt af hverju. T1 hefur fengið þann stimpil að vera frekar hallærisleg 80’s mynd sem átti sér einungis tilvist til að skapa T2, en hún er miklu meira en það. T1 er klárlega á top 100 listanum mínum yfir bestu kvikmyndum allra tíma, hún er stórkostleg og ekkert síðari en T2 sem Terminator mynd.

Og plís, JC, þetta Avatar rugl varð þreytt í Janúar 2010. Af hverju öll þessi framhöld?