Hinn feimni og óframfærni Trelkovsky flytur inn í íbúð þar sem fyrrverandi leigjandinn, Simone, hafði framið sjálfsmorð. Leigusalinn viðheldur nánast lögregluríki í húsinu, nágrannarnir eru íþyngjandi og smám saman fer Trelkovsky að verða sannfærður um það að þau séu ekki bara ábyrg fyrir sjálfsmorði Simone (sem hann verður smám saman heltekinn af) heldur séu þau einnig að reyna að fá hann til að hjálpa sjálfum sér yfir móðuna miklu.

„Leigjandinn“ er hugsanlega vanmetnasta mynd Polanskis og kemur sjaldan til tals þegar rætt er um verk hans. Hún er engu að síður meiriháttar karakterstúdía og verulega óhugnarleg sálræn hryllingsmynd á sama tíma. Polanski heldur okkur allan tímann á tánum um það hvort Trelkovsky (leikinn af honum sjálfum, og það mjög vel) sé smám saman að missa tökin á raunveruleikanum eða hvort atburðir myndarinnar eigi sér raunverulega stoð. Hann nær að byggja upp gríðarlega þrúgandi stemmingu í myndinni, og skrúfar fastar og fastar eftir því sem á líður þangað til maður er farinn að naga neglurnar undir það síðasta. Lokaatriði myndarinnar er eins vel heppnað og sjokkerandi og nokkuð annað sem ég man eftir, og skilur mann eftir með þessa tilfinningu að maður hafi verið að sjá eitthvað algjörlega frábært. Ef þú ert að kynna þér Polanski, og ert til dæmis fyrir Repulsion eða Rosemary’s Baby, þá er þessi algjörlega tilvalin fyrir þig.