Þegar maður hugsar um nýsjálenska kvikmyndagerð þá eru hobbitar það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það eru þó fjölmargar frábærar kvikmyndir sem hafa borist frá þessari fjarlægu eyju, þó fáum þeirra hafi verið horft jafn mikið framhjá og „The Quiet Earth“. Myndin, sem er frá árinu 1985, er vísindaskáldskapur og fjallar um mann sem vaknar einn morguninn við það að allir eru horfnir. Hann er einn eftir í heiminum, og reynir bæði að púsla saman hvað gerðist og reyna að halda sönsum meðan hann ráfar um leitandi sér að einhverju til að gera. Einn daginn heyrir hann hljóð….

Verkið fellur undir „Palli var einn í heiminum“ geirann, og er betri en þær flestar. Bæði vekur hún mann til umhugsunar um hvernig maður myndi sjálfur fást við þessar aðstæður, vekur upp andrúmsloft þrúgandi einsemdar, forvitni um leyndardóm þess sem gerðist og slær mann algjörlega út af laginu með endi sem alls ekki má segja frá, aðeins upplifa. Myndinni er leikstýrt af Geoff Murphy (sem á að baki meistaraverk eins og Young Guns II, Under Siege II og Freejack) og er með Bruno Lawrence í aðalhlutverki, lítið þekktan leikara sem dó aðeins 54 ára að aldri. Bruno á engu að síður stórleik í myndinni og, ásamt sterku handriti, gerir verkið að því sem það er.

Þetta er virkilega áhugavert stykki og er mælt með fyrir alla sem eru fyrir þéttan vísindaskáldskap eða blæti fyrir tilhugsuninni um að vera einn eftir í heiminum eins og undirritaður þjáist af.