Átján ár eru liðin síðan ofurmúmían Imhotep var endurlífguð á hvíta tjaldinu og ætlaði sér að sigra veröld okkar. Þessi ævintýramynd með Brendan Fraser og Rachel Weisz sló óvænt í gegn og halaði tæpan hálfan milljarð dollara á heimsvísu yfir sumartíman. The Mummy er góð blanda af spennu, léttum óhugnaði og gríni, þar sem leikarinn John Hannah léttir andrúmsloftið reglulega svo reiði kvíðasvipur Brendans verði ekki of truflandi.

Sagan er góð þar sem veröld mannkynsins liggur undir vegna Egypskrar plágu sem illmennið Imhotep mun sleppa. En fyrst þarf hann að endurlífga ástina úr lífi sínu en til þess þarf hann líkama Evey (Rachel Weisz). Sem betur fer kemur hinn Ameríski Rick O’Connell með allan sinn Indiana fíling og gætir þess að myndin haldist sem ævintýramynd en verður ekki að hryllingsmynd.

Persónur myndarinnar eru vel gerðar og skemmtilegar og halda lífi í henni, þrátt fyrir að sumar séu nær dauða. Ég fíla Fraser verulega í hlutverki Rick og finnst það alger synd að karlgreyið hafi ekkert mikið gert eftir Mummy þríleikinn. Hann á samt lítið í Rachel Weisz sem kynþokkafulli bókasafnsvörðurinn sem kann að nota byssu. Tíu ára gamla ég leit mikið upp til hennar. Hún hefur sem betur fer haft nóg á sinni könnu og við fengið að njóta veru hennar á hvíta tjaldinu í fjölmörgum myndum. Það er samt ekki hægt að tala um The Mummy án þess að minnast á illmennið Imhotep, leikinn af Arnold Vosloo. Ég er á því að hann var fæddur fyrir þetta hlutverk…. enda hefur hann lítið annað gert en þarna stóð hann sig með prýði.

Ógnandi tilburðir hans á hvíta tjaldinu gera myndina enn betri og skemmtilegri þó hann sé ýktur á köflum. En það er í góðu lagi þegar um popp sumarmynd er að ræða. Hægt er að rökræða um hvert illmenni myndarinnar er, helvítis pöddurnar eða múmían. Fyrir mér hefðu pöddurnar getað sigrað heiminn ef þær hefðu komist út fyrir eyðimörkina.

Myndin nær svo sannarlega að gera hið dulræna flott með flottum tæknibrellum á sínum tíma. Fjúkandi sandur, organdi múmía og ógeðslegt lík sem reynir að ræna kossi (ásamt nokkrum skynfærum af óheppnum kanamönnum) er ekki eitthvað sem auðvelt er að gleyma og er því ein ástæðan fyrir að The Mummy er mynd kemur oft upp í umræðunni, alveg óháð nýrri útgáfu af múmíu.

Þó The Mummy frá 1999 sé engin óskarsverðlaunamynd en hún er svo sannarlega eitthvað til að tala um og þess þá heldur að horfa á. Ævintýramynd með skemmtilegum hasar og góðu gríni ásamt nokkrum ógeðis atriðum gera The Mummy að fínni mynd til að detta í og gleyma sér aðeins.