Mikki Mús hefur tekið völdin í Vetrarbrautinni. Það er væntanlega rót vandans en hér verður ekki farið út í skrifstofuveldi Disney og Lucasfilm því þau mál eru of pólitísk fyrir þessa umræðu um ástsælan pop kúltúr og skáldskap.

Á meðan gagnrýnendur lofsyngja The Last Jedi eru Star Wars aðdáendur margir á öndverðu máli. Vandamálið liggur vanalega hjá ábyrgð myndarinnar til Star Wars söguheimsins. En The Last Jedi er ekki vandamálið. Fyrri myndin, The Force Awakens, er öllu heldur rót vandans. Hún gróf undan mikilvægum eiginleikum sem hafa alltaf átt sér stað í Star Wars heiminum, t.d. Máttinn. Varðandi ábyrgð til sögunnar og heimsins gerði The Last Jedi það besta úr því sem The Force Awakens setti upp með því að grafa undan ráðgátum og reyna sitt besta að heiðra heiminn og hugmyndirnar á ný. Fyrsta myndin grefur undan Star Wars sögunni, og sú næsta undan fyrri myndinni. Með því að reyna að bjarga þessu hefur The Last Jedi sett þessar tvær myndir í þversögn. Það má þá vera henni að kenna að þessi sería er ekki að virka, en varðandi ábyrgð til Star Wars heimsins er The Force Awakens sökudólgurinn.

Meginatriðin sem gefa þessa niðurstöðu eru tvær stórar spurningarnar úr ráðgátukassa J.J. Abrams og svör þeirra, og vanræksla á hugmyndafræði Máttarins.

 

Hinar tvær stóru og miklu spurningar

Þessar spurningar varða uppruna Rey, og hver Snoke er. Þær voru báðar útkljáðar í Jedi. The Last Jedi svarar hvor tveggja spurningunni svo: það skiptir ekki máli. „Let the past die.“ Hér má hver um sig dæma um hvort þessi tiltekna þematík hafi verið rétt ákvörðun eða ekki, en sama hvað fólki finnst um þetta er þetta vel gilt þema fyrir kvikmynd og gerir hana djúpstæðari en margar Star Wars myndir og flesta blokkböstera yfir höfuð, og réttlætir það að verið sé að tortíma öllum ástsælu karakterunum okkar – jafnvel Akbar. Þetta er síðan undirstrikað með hversu ómerkilegir foreldrar Rey voru. Því það, einnig, skiptir víst engu máli. Þeim sem fannst það skipta máli voru eflaust dáleidddir af J.J. Abrams og hans „mystery box“ aðferðum sem við höfum séð frá honum síðan að LOST fór í loftið: áhugaverðar spurningar sem því miður er ekki er hægt að gefa áhugaverð svör.

Ímyndum okkur hver svörin hefðu getað verið við hinum tveimur stóru spurningum, fyrrgreindum sem svo sterklega var ýtt undir undir í The Force Awakens:

1. Hverjir eru foreldrar Rey?

Þessari spurningu má svara með tvenns konar hætti. Foreldrar Rey:

A) Hafa mikið gildi í samhengi sögunnar; t.d.:

a. Rey er dóttir Luke.

b. Dóttir Obi-Wan.

c. Dóttir Snoke.

d. Dóttir af meyfæðingu (Máttarins) eins og Anakin.

B) Skipta engu máli og þjóna fremur hugmyndafræðilegum tilgangi; t.d.:

a. Foreldrar Rey voru þrælar eða verkamenn. Og ýtir það undir sjálfstæði karaktersins.

Það eru einungis þessir tveir andstæðu pólar. Það er enginn millivegur. Ef foreldrar Rey voru – segjum sem svo – af hátign en þó venjulegt fólk, jafnvel með áhugaverða baksögu, þá væru það einungis vonbrigði (anticlimactic) vegna þess að það hefði enga þýðingu í samhengi söguþráðarins.

Ég vona einnig að enginn telji ofangreind dæmi um ‘stórfengleg’ svör vera góð, því þau eru ekki bara klisja, heldur myndu þau einnig flækja fyrir og einungis krefja söguna um fleiri upplýsingar og baksögu í stað þess að halda áfram. Þess vegna gerði The Last Jedi mögulega það eina sem hægt var að gera í stöðunni. En það að þessar spurningar virtust vera af allt öðru tagi er eitt sem gerir þetta samhengislaust og setur þessar myndir í þversögn.

2. Hver er Snoke?

Sama gildir um Snoke. Annað hvort þyrfti hann að vera:

A) Mikilfenglegur eins og t.d. Mace Windu, nema endurfæddur af myrku hliðinni.
B) Einfaldlega Red Herring – handritstól sem gefur áhorfendum villandi upplýsingar um hvað raunverulega vandamálið er (sem í þessu tilfelli er Kylo Ren en ekki Snoke) – og þjónar söguþráði myndarinnar: Snoke leiddi Kylo Ren til myrku hliðarinnar, og á sinn rétta stað sem aðal illmennið.

Það er ekki umdeilanlegt hvort það að Snoke sé einungis Red Herring sé að útkljá málið eða ekki. Þetta er fullkomlega réttmæt leið til að útkljá málið og myndin (og myndir yfir höfuð) bera enga skyldu til þess að útskýra neitt fyrir áhorfendum. Það sem er umdeilanlegt er hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun, og hvort þetta hafi verið vel unnið yfir höfuð. Fáum við t.d. á tilfinningunni að Snoke hafi heildstæða baksögu, þó henni sé ekki troðið ofan í kokið á okkur? Ef ekki þá er þetta líklega mjög illa unnið. Einfaldasta niðurstaðan sem aðdáendur hafa komið upp með er sú að Snoke er klúður og Kylo Ren átti að vera Supreme Leader frá upphafi.

Það er augljóslega verið að þrífa upp eftir The Force Awakens til þess að koma sögunni á stað sem þau hjá Lucasfilm (Disney) vilja hafa hana; sögu sem snýst um Rey, Finn, Poe, og Kylo Ren. Og þetta eru (fyrir utan Rey) mjög góðir og flóknir karakterar. Sérstaklega Kylo Ren sem má vera með betri illmennum kvikmyndasögunnar fyrir það eitt að vekja svona mikla samúð hjá áhorfendum. Þar er að segja, að fjalla ekki um gamla karaktera eða karaktera byggða á gamalli hugmyndafræði eins og Snoke.

Vandinn er að allt þetta var þarna til að byrja með og The Last Jedi neyddist til þess að grafa undan þessu. Þetta var hugsanlega eina leiðin fyrir Disney að krækja beitur sínar í gamla aðdáendur og búa til nýja á sama tíma, aðeins til þess að henda þeim gömlu í burtu og byggja grunn fyrir nýja aðdáendahópinn. En það breytir því ekki að þetta séu vonbrigði þegar litið er til framhaldssagna og hvernig þær eiga að halda samhengi við sjálfan sig.

 

Vanræksla Máttarins

Varðandi vonbrigði og vandamál trónar eitt sem keisari þeirra allra: Mátturinn og meðhöndlun hans. Það er næstum það eina sem hægt er að segja með góðri samvisku um þessar myndir varðandi ábyrgðarleysi þeirra til Star Wars heimsins. Þetta var ekki einu sinni spurning úr ráðgátu kassa J.J. Abrams, heldur var eins og við áttum að samþykkja þetta án þess að blikka auga.

„The Force Awakens“ segir okkur að Mátturinn vakni, og þar af leiðandi að hann sofi, eða liggi í leti. Í þeirri mynd hefur Han Solo setninguna, „that’s not how the force works“ sem svar við heimskulegri athugasemd frá Finn. Slík staðhæfing hjá mikilvægum karakter gefur til kynna að handritshöfundarnir eru með þetta á hreinu. En miðað við hvernig Mátturinn var meðhöndlaður þá annaðhvort höfðu þeir enga hugmynd um það eða voru bersýnilega að gera sína eigin útgáfu. Nú í The Last Jedi er farið aftur í upprunalegu hugmyndirnar og Mátturinn útskýrður sem náttúran og jafnvægið. Þetta er í sjálfu sér heiðarleg tilraun. Myndin gerir sitt besta að bjarga þessu, en það virtust vera mistök því nú er ekkert samhengi. Er Mátturinn persónugert sofandi og vaknandi galdraafl eða binding náttúrunnar?

Í The Last Jedi hélt Rey að Mátturinn væri bara galdrar; lyfta steinum og stjórna hugsunum. En ef Mátturinn er jafnvægisafl náttúrunnar ætti Rey, með slíkum vanskilning, með engu móti að hafa geta hagrætt honum eða notað Máttinn á neinn hátt í fyrri myndinni. Kannski eftir að Luke kenndi henni það, og þetta hefði þá sloppið ef það fyrsta sem Rey gerði sjálf með notkun Máttarins væri í enda The Last Jedi. Þá mætti þessi “awakens” pæling verið viðbót frekar en umturnun. Rey var hins vegar orðin hrikalega öflug hálfa leið inn í The Force Awakens og þetta er í fullkominni þversögn við sjálfan sig.

Það þarf að tala um karaktersköpun Rey í þessu samhengi vegna þess að hún er farartækið sem keyrir áfram þessa vitleysu. Það er erfitt að fyrirgefa hversu illa skrifaður karakterinn hennar Daisy Ridley er. Reyndar er þetta það eina hér sem er ekki í fullkominni þversögn á milli þessara tveggja mynda. Það sem það þýðir er að þetta voru svo mikil mistök úr fyrri myndinni að ekki var mögulegt fyrir The Last Jedi að reyna að bjarga þessu með þversögnum, og þar af leiðandi einmitt það sem gerir Jedi ókleift að standa á eigin fótum og forðast allan samanburð við forvera sinn.

Þeir sem fylgjast með umræðu um þessar myndir vita eflaust eitthvað um Mary Sue. Þetta er ákveðið lýsingarheiti sem á uppruna sinn í grínbók frá 1973 eftir konu að nafni Paula Smith. Þar gerði hún grín af Star Trek fan-fiction með stuttri sögu um fimmtán ára ungling sem var liðsforingi í geimflota, og vildi svo til að bar nafnið Mary Sue. Unglingurinn Mary Sue var gríðarlega öflug, með meiri hæfileika heldur en allar aðrar persónur, og með lítið sem enga veikleika – að minnsta kosti ekki neina sem höfðu bein áhrif á söguna. Þessu hefur verið stimplað á Rey karakterinn, og eftir mikið umtal hefur þessu verið snúið yfir í pólitískar umræður um kynjaréttindi þannig að hér þarf því miður að segja:

Rey er ekki Mary Sue, heldur einfaldlega illa skrifaður karakter. Hún er að vísu mjög viðkunnanleg og tekur eigin ákvarðanir sem eru góðir eiginleikar, en hefur hræðilega karaktersköpun. Karaktersköpun má segja að sé söguþráðurinn sjálfur; ferðalag persónunnar í gegn um atburði sögunnar og hvernig það hefur áhrif á hana. Í hnotskurn er vel skrifaður karakter persóna með stórfenglega galla og veikleika sem hindra hana í að ná markmiði sínu. Þess vegna fjárfestum við tíma og tilfinningum í viðkomandi karakter – við viljum vita hvort markmiðinu verði náð þrátt fyrir veikleikana.

Þessi meginregla á heppilega við um alla karaktera í söguheimi Mikka Mús og sérstaklega í The Last Jedi. Fyrir utan aðalpersónuna Rey sem er akkúrat öfugt við það. Hún er persóna með stórfenglega kosti og styrkleika sem auðvelda henni að ná markmiði sínu. Einkum í The Force Awakens þar sem er lagt áherslu á yfirnáttúrulega flugkappa hæfileika hennar á par við besta flugmann Andspyrnuhreyfingarinnar Poe Dameron. Betri vélvirki á eldgömlum farartækjum eins og The Millenium Falcon heldur en eigandinn sjálfur Han Solo. Öflugri í notkun Máttarins og í sverðabardaga heldur en Kylo Ren þaulreyndur Sith Lord. Engar útskýringar á neinu af þessu heldur nema þá mögulega, “because… the force.”

The Last Jedi virðist hafa reynt sitt besta að tóna þetta niður, en ef lengra er litið er það ekki raunin. Rey er gerð að fífli af Snoke en aðeins sekúndum áður en Snoke er sjálfur gerður að fífli og hún sannreynd sem spámaður og hetja. Einnig vinnur hún Luke Skywalker sjálfan í skilmingum. Það er væntanlega afsakað með því að Luke hafði lokað sig af frá Mættinum, en persónulega var undirritaður að vona innilega að henni yrði skellt rækilega á rassinn og sett á sinn stað. The Last Jedi má eiga það að hún gaf okkur betri innsýn inn í ótta og tilfinningar hennar. Það var næstum leyft þessum ótta að vera veikleiki í þráði sögunnar því hún lét plata sig af Snoke. En ekki var leyft því að hafa áhrif á hana því ákvarðanir hennar um að fara eftir ráðabruggi Snoke reyndust ekki vera mistök, og þessi veikleiki gerður tilgangslaus.

Þetta er nákvæm lýsing á Mary Sue karakter, en útaf allri pólítík í kring um þetta hugtak er betra að sleppa því og segja einfaldlega að hún er afkvæmi vondrar karaktersköpunar. Það leyfir okkur líka að sjá umfram Mary Sue eiginleika hennar og kafa dýpra ofan í afleiðingarnar:

Áhorfendur eru með þessu móti rændir af öllum möguleika á ferðalagi með þessum karakter, þar sem við fengjum að sjá hana þroskast og þróast, verða öflugri í notkun Máttarins í gegn um erfiðan árangur, og betri manneskja yfir höfuð. Ferðalagið hér snýst augljóslega ekki um staðina sem farið er á, eða hversu mikið af fólki persónan hittir – þó það allt saman getur haft áhrif – heldur hversu mikið persónan þroskast, og það sem hún þarf að ganga í gegnum til þess að öðlast þennan þroska.

Það er erfitt að bera þetta ekki saman við upprunarlegu myndirnar og ferðalagi Luke í gegnum þær myndir, en fyrir sakir nútímans má einnig gera samanburð við Kylo Ren. Hann gengur í gegn um mjög miklar og stórfenglegar breytingar sem karakter. Hann byrjar sem krakki með reiðisvandamál sem reynir að binda enda á togstreitu innan í sér á milli þess góða og illa með því að drepa föður sinn. Það gerir málin verri og togstreitan eykst, gerandi hann að frekar aumingjalegum vesæling. Án þess að geta ákveðið sig á milli fyrirmælum illa meistara síns og síns eigins eðli, tekur hann aðra ákvörðun sem sendir hann á sína eigin braut. Hann sleppir fortíðinni og verður Supreme Leader Kylo Ren. Hið raunverulega illmenni Vetrarbrautarinnar. Það má óska Adam Driver til hamingju fyrir að hafa landað góðu hlutverki, en samhryggjast Daisy Ridley fyrir sitt.

Karaktersköpun Loga Geimgengils var einnig í hæsta flokki í The Last Jedi og einnig má óska Mark Hamil til hamingju. Hér hefur hins vegar verið deilt um hvort brot á söguheimi Star Wars sé um að ræða, þar sem þetta fer á móts við hvernig persóna Luke á að vera. Sjálfur sé ég ekki neitt við fyrri Stjörnustríðsmyndir sem er í samhengisleysi við þróun karaktersins í The Last Jedi. Ef eitthvað þá var þessi leið sú áhugaverðasta vegna þess að hún bauð einmitt upp á karaktersköpun. Eina leiðin til þess er að brjóta persónuna niður á stað þar sem hún á möguleika á að þroskast. Ef Luke væri á toppi sinnar persónu eins og hann var í Return of the Jedi hefði verið lítið fyrir hann að gera í þessari mynd nema vera fullkominn og æðislegur eins og Rey.

Hins vegar má vel deila um það hvort skipta hefði átt á hlutverkum þeirra – brjóta hana niður og gera Luke að hinni klassísku meistara-persónu sem veitir aðalpersónunni innblástur. Það er líklega það sem reiðu aðdáendurnir vildu, réttmætanlega. En því miður var karakterinn hennar Daisey Ridley ekki á stað sem bauð upp á það, nema þá með því að kynna inn enn aðra þversögnina og fjarlægja hana af öllum ofurmætti frá fyrri myndinni.

 

_____________________

Sem kvikmynd óháð öllum pop kúltúr er The Last Jedi góð mynd með mörgum af flottustu senum sem fram hafa komið í þessari seríu. Flest kvikmyndatengd vandamál eru eflaust sprottin frá því að hún reynir að segja of margar sögur í einu – kaflinn á aristókrata- fjárhættuspilara-plánetunni var til dæmis of flýttur fyrir þannig að undirliggjandi skilaboðin náðu ekki almennilega inn. Reyndar eru skilaboðin réttmætanlega sögð vera eintómt vegan- propaganda. Einnig hefur húmorinn ekki verið tekin vel og margar fínar ástæður fyrir því. En hugmyndirnar um grá siðferðisleg svæði voru ferskar í Star Wars heimi og erfitt er að vera ósáttur þó það grefur undan gamalli Star Wars hugmyndafræði.

Einnig hefur hún mjög vel mótaða karaktera. Poe varð að dýnamískum karakter drifinn áfram af glæfralegri hvatvísi og gerir fleiri en ein mistök sem hann lærir af, frekar en einsleiti ofur-flugmaðurinn úr fyrri myndinni. Finn hélt áfram að vera bleyðan sem kemur sér í aðstæður þar sem hann neyðist til að vera hetja. Luke er flóknari en hann hefur nokkru sinni verið. Kylo Ren hlýtur svo að taka birginn fyrir að vera svona vel mótað illmenni. Fyrir að hafa svona góða karaktera – aftur: fyrir utan Rey; búið er að skrifa hana út í horn með því að ræna hana öllum möguleika á þroska og þróun, megi samviska vera með Daisy Ridley – má gefa þessari mynd topp einkunn án þess að skammast sín.

Það sem þessi grein hefur hins vegar fjallað um er ábyrgð hennar til Star Wars heimsins og þar er The Last Jedi að reyna sitt allra besta að gera vel við heiminn og söguna, og á sama tíma að gera eitthvað nýtt og ferskt. Útkoman hins vegar að þetta kremur alla söguna ofan á sjálfan sig, sökum The Force Awakens. Það er ekki þar með sagt að öll feilspor Jedi séu The Force Awakens að kenna, en nóg af þeim eiga sér rætur þar; ef á að hengja The Last Jedi fyrir ábyrgðarleysi hennar til Star Wars söguheimsins þarf The Force Awakens að fara með henni í gálgann.