Nýjustu fréttir herma að það eigi að reyna endurgera The Thomas Crown Affair í annað sinn, en í þetta skipti yrði það Michael B. Jordan sem færi með hlutverk Thomas Crown. Handritið hefur ekki verið samið og enginn leikstjóri ráðinn, en sagt er að það hafi verið Jordan sem kom með þessa hugmynd til þeirra sem eiga réttinn á kvikmyndinni.

Michael B Jordan

Myndin kom fyrst út árið 1968 með Steve McQueen og Faye Dunaway í aðalhlutverkum, en svo var hún endurgerð árið 1999 og þar fóru Pierce Brosnan og Rene Russo með sömu hlutverkin (nema nafni hennar karakter var breytt). Báðar útgáfurnar eru yfir sjötíu prósent ferskar á rottentomatoes.com.

The Thomas Crown Affair 1999

Athyglisvert væri að sjá hvernig þeir myndu nútímavæða þessa nýju útgáfu í dag, en þegar 1999 endurgerðin kom út á sínum tíma þá höfðu þeir breytt ýmsu frá upphaflegu kvikmyndinni.

Myndin frá 1968 hafði meðal annars Crown sem mann sem réð aðra menn til að ræna banka fyrir sig, en í endurgerðinni 1999 var málverkum rænt og tók hann sjálfur þátt í ránunum. Í báðum kvikmyndunum gerði hann þetta samt sér meira til skemmtunar en til að græða þar sem hann var nú þegar auðugur viðskiptamaður.

Í báðum kvikmyndunum kemst karakter Dunaway/Russo á snoðir um Thomas Crown og hans uppátæki, en verður svo ástfangin af honum í leiðinni. Í 1968 myndinni ná þau ekki saman á endanum, en í endurgerðinni 1999 er ýjað að því að þau nái saman í lokin.

Eins og sagt var að ofan er verkefnið enn stutt á veg komið svo ekki er víst að eitthvað verði úr því, en ég allavega vona að svo verði.