Seinna sýnishornið fyrir áttu myndina frá Quentin Tarantino lenti fyrir skömmu síðan og þó hann gefi ágætis smjörþef af því sem framundan bíður, þá virðist sömuleiðis markmiðið vera að gefa ekki upp alltof mikið.

Tekin upp í klassísku 65 mm Panavision hlutföllunum (sem er breiðasta ‘aspect ratio’ formið, þ.e. 2:76:1) og segja má að The Hateful Eight verði „afmarkaðasta“ mynd meistarans síðan Reservoir Dogs leit fyrst dagsins ljós. Myndin verður hátt í þrír tímar að lengd og eftir því sem áhorfandinn veit best gerist hún að almestu leyti í einum kofa. Þar fyrir utan er persónufjöldi augljóslega ekki svo hár, þannig að erfitt er að valhoppa milli brota án þess að leggja það strax saman hvað gæti orðið um hvern.

Tarantino hefur sjálfur sagt að einn stærsti innblástur myndarinnar er ekki eingöngu vestrageirinn eins og hann leggur sig, heldur sækir hann í seríur eins og Bonanza og The Virginian. Þetta hafði hann að segja um verkið við Deadline:

„Mér datt í hug að gera mynd sem fjallar aðeins um fullt af vafasömum gæjum sem sameinast í eitt rými, segjandi baksögur sínar sem gætu eða gætu ekki verið sannar. Lokum alla þessa karaktera inni á meðan það er blindbilur fyrir utan, gefum þeim byssur og sjáum hvað skeður.“

 

The Hateful Eight er frumsýnd 8. janúar. Fyrirlítanlegu áttmenningar myndarinnar samanstanda af Samuel L. Jackson, Kurt Russell, Jennifer Jason Leigh, Walton Goggins, Demián Bichir, Tim Roth, Michael Madsen og Bruce Dern.