Þegar talað er um „Spaghettívestra“ hugsa flestir um þríleik Sergio Leone með Clint Eastwood um nafnlausa manninn. Það voru hinsvegar gerðir hundruðir spaghettívestra, margir hverjir stórskemmtilegir og meira að segja nokkrir sem voru „í alvörunni góðir“.

Einn af þeim er „The Great Silence“ (Il Grande Silenzio), leikstýrt af Sergio Corbucci sem einna þekktastur er fyrir að hafa leikstýrt hinni upprunalegu „Django“ sem Tarantino hefur nú sótt innblástur í með „Django Unchained“. „The Great Silence“ fjallar í stuttu máli um fátækling sem vegna hungurs hafði neyðst til þess að gerast útlagi og hvernig hann var síðan myrtur af hausaveiðaranum „Loco“ (geðsjúklingurinn og barnaníðingurinn Klaus Kinski, sem alveg burtséð frá öllu því var skuggalega góður leikari) og gengi hans. Ekkjan ræður byssumanninn „Silence“ til þess að hefna fyrir lát mannsins, og við tekur barátta þessara tveggja manna með frost, vetrarstorma og snjó í bakgrunninum.

Þessi mynd er ólík öllum öðrum vestrum sem ég hef séð. Köld, hrá og grimm, með æðislegri tónlist Ennio Morricone sem setur mjög sérstakan brag á myndina. Hún gerist hvorki í eyðimörkinni né grösugum sléttunum eins og flestir vestrar gera, heldur í Utah á meðan frosthörkurnar miklu árið 1899 gengu yfir.  Endir myndarinnar, sem augljóslega verður ekki gefin upp hér, var mjög umdeildur enda er hann eins langt frá hinum týpíska vestraendi (eða kvikmyndaendi almennt) og hægt er að komast. Svo langt að framleiðendur myndarinnar heimtuðu að tekinn yrði upp „venjulegur“ endir, en sem betur fer er það sá upprunalegi sem hefur lifað frekar en hinn.

Þetta er sérlega eftirminnileg kvikmynd og hefur vegur hennar farið vaxandi undanfarin ár eftir því sem meira hefur verið fjallað um hana. Mæli með.