„Every dream deserves a fighting chance.“ 

Ég var mikill aðdáandi hnefaleika hér áður fyrr, fylgist aðeins með núna. Ég sá Mickey Ward berjast margoft og var því mjög spenntur fyrir þessari mynd fyrir 8 árum, þó svo að Darren Aronofsky hafi hætt við að leikstýra. Ward er boxari sem var alltaf gaman að fylgjast með þó svo að hann hafi aldrei verið í hópi með þeim allra bestu. Í þessari mynd er fókusinn settur á hans einkalíf sem hefur verið erfitt og sveiflukennt. Bróðir hans, sjálfur fyrrverandi boxari og þjálfari Ward, var fíkill og vandræðagemsi. Christian Bale er frábær í því hlutverki og eiginlega ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé sami gaurinn og lék Batman. Mark Wahlberg er líka mjög góður sem Ward og lagði greinilega mikið á sig til að líkja eftir boxstílnum sem var ánægjulegt að sjá.

Það pirraði mig mikið hvað það er hringlað í ferli Ward í myndinni. Þegar hann vinnur Sanchez er honum boðið að berjast beint við Neary í myndinni en í raun barðist hann sex sinnum á milli og tapaði tvisvar, fyrir Vince Phillips og Zab Judah. Saga Vince Phillips gæti reyndar verið betri þegar ég spái í því, hann vann sig upp úr fíkn og vann Kostya Tszyu. Smá útúrdúr. Titillinn sem Ward vann í myndinni er í raun einskis virði. Þetta er WBU beltið sem skiptir engu máli í hnefaleikum. Í raun varð Ward aldrei meistari og mér finnst kjánalegt að láta það líta þannig út í myndinni. Það sem pirraði mig líka var að það er ekki farið inn á hápunkt ferils hans, þ.e. sigur á Artur Gatti í einu rosalegasta stríði sem sést hefur í box hringnum.
Þrátt fyrir þetta er þetta áhrifarík og skemmtileg mynd. Það er mikið drama en aldrei yfirþyrmandi. Bardagarnir eru vel útfærðir og það var gaman að heyra upphaflegu HBO lýsingarnar klipptar inn í þá.

„Do you think I knocked down Sugar Ray Leonard?

Leikstjóri: David O. Russell (Three Kings, I Heart Huckabees)