„How the east was won.“

Það elska allir Woody Harrelson. Innkoma hans í Cheers í staðinn fyrir Coach var upphafið á mögnuðum ferli og þegar hann gerði Natural Born Killers stuttu síðar sýndi hann heiminum að hann er til alls líklegur. Síðan þá hefur hann gert misjafnlega góðar myndir en kallinn stendur alltaf fyrir sínu. Svipaða sögu má segja um Kiefer Sutherland. Ég kynntist honum fyrst í myndum eins og Young Guns og Flatliners en í dag er hann sennilega best þekktur sem Jack Bauer í 24.

The Cowboy Way er nokkuð dæmigerð bandarísk grínmynd um tvo kúreka sem þurfa að fara í ferðalag til New York. Eins og Crockodile Dundee eru þeir algjörir jólasveinar og kunna lítið á bæjarlíf. Þeir gera sig að fífli með regluleg millibili og inn í söguna fléttast hefðbundinn eltingaleikur og svo framvegis. Geisp. Þessi mynd er nákvæmlega eins og maður heldur að hún sé. Hún er fyndin á köflum, Woody að þakka, en ekki nægilega til að hægt sé að mæla með henni. Kiefer Sutherland er fýlupúki í myndinni eins og hann var oft á þessum tíma. Það er Woody sem gerir þessa mynd áhorfanlega en þetta er samt langt frá því að vera í hópi með hans bestu myndum.

„If it’s got hair, I can ride it. If it’s got a beat, I can dance to it.“

Leikstjóri: Gregg Champion