Það er óneitanlega fjörugt að horfa á Charles Bronson slátra illmönnum með gígantískri hríðskotabyssu en það er ekki jafn fjörugt að átta sig á því að maður er alger fasisti fyrir að hafa notið þess. Boðskapur Death Wish 3 er sá sami og upprunalega Death Wish myndin frá 1974, að eina leiðin til að fá réttlæti fyrir ameríska karlmanninn er að skapa það sjálfur með ofbeldi og morðum. Þetta er allt voða Freudískt, karlmenn að drepa hvor aðra með typpalengingunum sínum í formi skammbyssa, hríðskotabyssa hnífa, bazookas og hvað eina. Allavega er það ein kenning um undirmeðvitund þessara mynda.

Death Wish (1974) var helvíti nett ’70s hefndarmynd, grimm og miskunnarlaus en með góða sögu og spennandi í þokkabót. Charles Bronson er svo svalur andskoti hann þarf einungis að standa kjurr til að grípa athygli þína. Hann er 174 cm af hreinu karisma og jafnvel þó hann lék í slatta af rusli á sínum tíma þá stendur hann alltaf uppúr. Af hverju skrifa um Death Wish 3 frekar en hinar fjórar Death Wish myndir? Það er því þriðja myndin er hápunktur þvælunnar og kókaðasta Death Wish myndin, enda framleidd og gefin út árið 1985.

vlcsnap-8643-03-21-23h23m04s664

Í raun þarftu ekki að hafa séð fyrri tvær myndirnar til að njóta þessa, það er þó betra því þá hefurðu meiri skilning á aðalpersónunni og baksögunni hans. Í stuttu máli þá er þetta Charles Bronson á móti heilu New York hverfi af hrottalegum skítseyðum, í öðrum myndum er hann að drepa kannski nokkra hér og þar. Í þessari drepur Charles Bronson allt sem hreyfist en í þetta sinn er hann með stuðning frá lögreglustjóranum/harðjaxlinum leikinn af Ed Lauter. Það er yfirdrifið, ótrúlegt og æðislegt. Fasismi og fjöldamorð í B-myndum er ekkert nema yndislegt, nákvæmlega andstætt við raunveruleikann enda er þessi mynd nákvæmlega EKKERT tengd raunveruleikanum. Þessi saga gerist í einhverjum súrum kvikmyndaheimi þar sem svona hlutir eru sjálfsagðir, þar sem hverfisbúar fagna yfir dauðum þjófum og glæpamönnum opinberlega. B-myndalega séð er það algert gull en jafn raunsætt og Wile E. Coyote & The Road Runner. Má einnig benda á að leikstjórinn Michael Winner sem lést fyrir nokkrum árum er mögulega einhver ömurlegasta manneskja sem hefur nokkurn tímann setist í leikstjórastólinn. Ég hef ekki lesið neitt gott um manninn nema að hann hafi verið hæfur leikstjóri, sögurnar frá leikurum varðandi manninn eru frekar magnaðar.

vlcsnap-1311-01-03-20h12m00s600Það er smá Last Action Hero satíra í Death Wish 3. Það er bókstaflega búið að nauðga og drepa alla nánustu ættingja Charles Bronson í fyrstu tveimur myndunum og í þetta sinn er hann að hefna vinar síns úr Kóreustríðinu. Man einhver eftir Jack Slater IV? Eitthvað second cousin Frank dæmi í gangi sem var reyndar átta árum síðar en var mögulega að gera grín að Death Wish seríunni. Það er auðvitað ekki vottur af trúverðleika í hversu óheppin þessi aðalpersóna er sem heitir reyndar Paul Kersey og er arkitekt sem slátrar hrottum í frítíma sínum. Fyrsta myndin innihélt að minnsta kosti einhvern vott af trúverðleika en þegar kemur að þriðju myndinni erum komin algerlega í B-mynda schlock svæðið. Þetta eru einnig ekki alvöru hrottar, heldur ’80s kvikmyndahrottar, það er mjög skýr munur þar á milli. Hallærislegt og ofleikið lið sem ég efa hafi nokkurn tíman verið til neinsstaðar en þau smellpassa í þann þvæluheim sem myndin gerist í.

Aðalhlutverkin eru vel valin, Charles Bronson bregst aldrei. Ed Lauter og Martin Balsam eru góðir og aðalskúrkurinn leikinn af Gavan O‘Herlihy er reyndar fjári sannfærandi sem viðbjóðurinn sem hann leikur. Hann er kaldhæðnislega séð eini aðalleikarinn sem er ennþá lifandi í dag og eini af þessum fjórum karlhlutverkum sem SPOILER… deyr í myndinni. Auðvitað er troðið mjög neyddri ástarsögu milli Paul Kersey og fallegrar konu leikin af Deborah Raffin (einnig látin) sem er helmingi yngri en hann sjálfur. Því miður þjónar konan engan tilgang fyrir söguna nema að gefa Paul Kersey meiri hvatningu í hefndinni sem var nú þegar til staðar því að… SPOILER… hún er myrt á hræðilegan en jafnframt drepfyndinn hátt af vondu köllunum. Það var víst ekki nóg að vini hans sé slátrað og að heilt hverfi sé á hnjánum að grátbiðja um hans hjálp, það verður að drepa heitu ljóskuna einnig sem hefur enga gilda ástæðu að fíla Paul Kersey nema því hann er Charles Bronson. Kannski er það nóg? (spoiler búinn)

vlcsnap-6939-06-29-05h44m07s561Það er einnig hefð í þessum Death Wish myndum að hafa að minnsta kosti einn „to be“ þekktann leikara sem eitt af aðalskítseyðunum. Fyrsta myndin hafði Jeff Goldblum, seinni hafði Laurence Fishburne, þriðja hefur Alex Winter (sem hataði að vinna með leikstjóranum) sem lék Bill í Bill & Ted myndunum og fjórða hefur Tim Russ sem var Tuvok í Star Trek: Voyager. Fimmta hefur einhvern einnig en ég hef ekki skoðað hana nógu vel. Svo er loks komin sú niðurstaða að endurgera Death Wish með Bruce Willis í aðalhlutverki, eitthvað sem ég tel vera algerlega tilgangslaust og illa valið. Bruce Willis hefur ekki lengur áhugann né kúlið til að púlla svona hlutverk lengur, en vonandi hef ég rangt fyrir mér. Eli Roth er einnig að leikstýra henni svo ég efa að myndin muni innihalda neitt innihaldríkara en ódýrt slasher klám. Marina Sirtis sem lék Troi í Star Trek: The Next Generation kemur einnig fram en henni er auðvitað nauðgað og myrt. Hún einnig hafði ekkert gott að segja um leikstjórann. Ed Lauter kom einnig fram í Star Trek: TNG, mikið af Death Wish – Star Trek tengingum hérna. Svo er enginn annar en Jimmy fucking Page að semja tónlistina, einn af meðlimum Led Zeppelin og hann samdi einnig tónlistina í Death Wish II. Furðulegur heimur.

Seinustu 15 mínúturnar af Death Wish 3 eru stórkostlegar. Jafnvel ef þér drepleiðist yfir myndinni (sem ég sé ekki hvernig er hægt) þá ættu augun þín að lifna við þegar óreiðan hefst. Michael Winner var kannski alger hrotti en hann kunni svo sannarlega að filma fjörugt ofbeldi. Hann klippti víst myndina sjálfur undir dulnefninu Arnold Crust og klippingin er soldið útum allt. Hann notar mjög fjölbreytt en einnig undarleg skot og klippir þau gjarnan hratt saman, stundum virkar það en stundum er eins og ofvirkur nemi nýskriðinn úr kvikmyndaskóla sé að sjá um klippinguna. Hins vegar gefur klippingastíllinn myndinni soldið spes sjarma á óútreiknanlegan hátt. Líklega var Winner að reyna halda ferskleika í stílnum á seríunni enda leikstýrði hann fyrstu tveimur einnig.

Death Wish 3 er æðisleg og fráleit vitleysa. Ég get mælt með fyrstu fjórum Death Wish myndunum, þeirri allra fyrstu sem góðri 70‘s mynd en hinum meira sem schlocky B-myndum og Death Wish 3 er klárlega hápunktur þeirra.