„The battle for tomorrow has begun…“

Eftir frumlega og frábærlega vel gerða mynd um óstöðvandi vélmenni frá framtíðinni var ekki annað að gera en að skipta upp um tvo gíra og gera framhald. Terminator 2 er mynd sem ég elska eins og kaffi á morgnana og þungaviktar titilbardaga. Þessi mynd er rosaleg keyrsla. Þegar hasarinn byrjar þá hættir hann ekki fyrr en búið er að rústa hálfri borginni eða svo. Arnold Schwarzenegger skiptir um hlutverk frá fyrri myndinni sem var sniðugt tvist, sérstaklega af því að það opnar dyrnar fyrir einu rosalegasta illmenni sem sést hefur í hasarmynd, T-1000. Robert Patrick er í raun stjarna myndarinnar. Hann eltir John Connor eins og hlébarði á eftir bráð og fljótandi málmurinn er algjör snilld. Þegar myndin kom út var þetta það flottasta sem sést hafði af tölvutækni í kvikmynd. Linda Hamilton breytti sér auk þess úr venjulegri ungri konu í vöðvastælt stríðskvendi. Umbreytingin er mjög sannfærandi og mikilvæg fyrir þessa mynd þar sem Sarah Connor þarf að vernda John jafn mikið og tortímandinn. Veikleiki myndarinnar er fyrst og fremst Edward Furlong. Hann er aðeins of steiktur á köflum en auðvitað á hann að vera gelgja í myndinni svo það er kannski ósanngjörn gagnrýni. Þessi er ósnertanleg í minni bók.

„You’re the one livin’ in a fuckin’ dream, Silberman! ‘Cause I know when it happens! It happens!“

Leikstjóri: James Cameron (The Terminator, Aliens, The Abyss, True Lies, Titanic, Avatar)