Internetið logar nú í hörðum nördaumræðum um Batman v Superman, og ég get ekki hætt að hugsa um hana eftir að hafa séð þessa eyðileggingaþörf Snyders hér fyrir stuttu. Bæði því það var svo margt sem fór mjög illa í mig sem aðdáanda og annað sem ég dýrkaði. Ég hreinlega get ekki alveg ákveðið hvoru megin við línuna ég er en kannski hjálpar til að skrifa nokkrar línur um hana og ígrunda með öðrum. Athugið að hér munu koma spillar!

Kíkjum aðeins yfir Bat v Supes: ‘Gott v slæmt’:

 

Slæmt: Lex Luthor!

b1jj1j1

Það er ekki hægt að segja annað en þetta var misheppnað frá fyrstu fregnum hver myndi leika hann. Jesse Eisenberg leikur hann alveg ágætlega en ég bara hreinlega skil ekki hvað hann er að leika. Er hann brjálaður snillingur sem gengur línuna milli snilldar eða geðveiki? Er hann bara geðsjúkur, óöruggur intróverti með fullt af peningum til að kasta á glæ? Pabbakomplexar, guðakomplexar, hræðsla/öfund gagnvart Superman og siðblinda samansett í einn karakter ásamt hundrað öðrum þáttum sem Jesse greyið átti að samsetja í einn.

Þetta er skítsæmileg túlkun á sinn hátt en passar ekki inn í veröldina sem Zack Snyder er að berja ofan í okkur.

 

Gott: Batfleck!

batman-v-superman-dawn-of-justice-ben-affleck

Ég var án efa ein af þeim sem efaðist um hann í þetta hlutverk. Fannst hann vera búinn með ofurhetjuferilinn eftir Daredevil og við fáum engin aukalíf þar í raunveruleikanum, nema þú heitir Chris Evans. Sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér því við sjáum þarna Bruce Wayne sem milljónamæringinn, partýellismellinn, yfirmanninn sem er annt um fólk sitt, snillinginn (,morðinginn?) og hetjan sem Batman á skilið. Svo var hann og Jeremy Irons flottir saman. Samtölin þeirra um Batman og Bruce sem sitthvort hlutverkið og sitthvora persónuna er frábært sem sýnir svolítið hvernig Batman átti erfitt með að skilgreina sig sem annað hvorn, en aldrei báða.

 

Slæmt: Lois Lane.

Eftir að hún kleif ísvegginn í háhæluðum skóm þá hef ég átt erfitt með að samþykkja hana því Lois á að vera klár. Hún á að vera góð kona. Hún á að nota toppstykkið! Af hverju gerir hún það þá ekki??

Hún hefur líka magnað talent fyrir því að skipta sér af þráðum í plotti sem eiga ekki að koma henni við. Fín leikkona auðvitað, en týndur karakter.

 

Gott: Wonder Woman

gal-gadot-wonder-woman-lasso

Í fyrstu senu hennar þá greip hún mann. Ekkert nema augnaráðið og við vissum að við ættum að fylgjast með henni. Sérstaklega þar sem henni tekst það sem fáum tekst og það er að stela frá Batman. Bæði athyglinni og gögnum.

 

Slæmt: Eyðileggingarklám Snyders

Kvikmyndamenn hafa margoft notað eigið persónulegt líf sem innblástur eða þemu í kvikmyndum sínum. Spielberg er þekktasta dæmið um það („feðra-issjús“). Hvað gerðist fyrir Snyder á æviskeiðinu hans sem veldur því að hann þurfi að tilbiðja vaxtarræktartröll, reiðar hetjur og sér í lagi eyðileggja stórborgirnar trekk í trekk og á þennan myrka sjónræna og truflaða hátt? Svona gæjar þurfa knús.

 

Gott: Bardaginn

promo277033891

Ég vissi hvernig bardaginn myndi enda, þ.e. hver myndi vinna. Framvindan var samt alveg mjög flott og töff að sjá krafta Batman búningsins. Við fáum líka að sjá þarna hvernig Batman teflir við Superman og er alltaf þremur leikjum á undan og vel skipulagður (þó strategía Blaka hafi óneitanlega mikið stólað á heppni). Yfir alla myndina er spennan flott að mestu og gengur upp (oftast) og þar er opnunaratriðið vel gert þar sem við sjáum eyðileggingu Supermans frá sjónarhorni Bruce Wayne og í raun upphaf þessa haturs.

 

Slæmt: Bílahasarinn

Við fengum nokkra mjög góða bílaeltingaleiki í Nolan-þríleiknum. Í samanburði við þá var þessi litli eltingaleikur alger vonbrigði. Týpískur, óspennandi og andstæðingarnir gera Blakanum þetta ekkert að öðru en barnaleik. Það er ekki fyrr en Superman stoppar eltingarleikinn (sem meira að segja hann var orðinn þreyttur á) þar sem Bruce klessir alveg á vegg.

 

Gott: Robin!

f76cfea1456381be6521e271a45dad13ab9918c9.png.cf

Ókei, smá svindl þarna, en ég elska Robin, hef verið skotin í honum síðan ég ólst upp við Batman: The Animated Series. Á furðulegan hátt kveikti Robin-búningurinn á ást minni á myndinni, sem og það er vísun í Death in the Family söguna þar sem leiðinlegasti Robin var drepinn (win-win). Það er samt áberandi að þetta er vísun í Dick Grayson þar sem búningurinn er mun líkari Nightwing búningnum en hefðbundna rauða og græna barnabúningnum sem við erum vön. Fyrir alla þá sem þola ekki Robin þá er þetta líka gott því hann er dáinn og í raun bara önnur áminning á hvers vegna Batman er eins og hann er.

 

Slæmt: Batman drepur

Mér er alveg sama þó Superman hafi drepið Zod í Man of Steel. Örugglega því ég er ekki mikill aðdáandi hans en þú eyðileggur ekki Batman fyrir mér! Meira að segja börn á leikskóla vita að Batman drepur ekki, og notar heldur ekki byssur! Það gerir Batman svo miklu svalari þegar þú veist að hann getur sigrast á fjölda skúrka án þess að grípa „auðveldu“ leiðina (hann segir sjálfur í The Dark Knight Returns myndasögunni: „Betra að nota hnefana og heilann“), og þar fyrir utan er Bruce Wayne oftar en ekki á móti skotvopnum því eitt slíkt leiddi foreldra hans til dauða! Af hverju þurfa Snyder/Goyer að eyðileggja það? Meira að segja bíllinn er pakkaður með byssum. Hvar eru töfratækin, brelluatriðin, olíu og þessi vopn sem slasa, fanga en drepa ekki? Nú fara öll mín rök um að ofurhetjur drepa ekki og eru góðar út um gluggann og ég fæ aldrei að fræða börn um þær í framtíðinni. Takk Snyder.

 

Gott: Alfred

BvS_4

Hann er eins og nöldrandi móðir í barninu sínu því hún fær engin barnabörn. Hann vill Bruce ekkert annað en að hann finni sér konu og stofni fjölskyldu en í kaldhæðninni og gríninu sést að hann er löngu búinn að gefast upp á þessum væntingum og notar frekar sem skotfæri til að létta á andrúmsloftinu í hellinum.

 

Slæmt: Handritið.

Ég vil fara í bíó með spurningar og fá þeim svarað. Ekki ganga út með enn fleiri og ringlaðri í hausnum en ég var þegar ég gekk þarna inn. Efniviðurinn er of mikill (hefði dugað í að minnsta kosti tvær myndir), fer of mikið út um allt og dregur sögurnar úr of mörgum myndasögum.

 

 

Ég er enn engu nær svo það þýðir örugglega að ég mun þurfa að fara á hana aftur og meta betur. Þangað til vil ég heyra í ykkur.