Hugtakið nostalgía er talið geta þýtt tvennt: í fyrsta lagi heimþrá og í öðru lagi ljúfsáran söknuð til fyrri tíma, þegar allt var betra, einfaldara, viðkomandi var yngri o.þ.h. Hvort tveggja á mjög vel við um allan efniviðinn og undirstöðu þeirra þemu sem finna má í T2 Trainspotting. Á meðan Hollywood-færibandið leikur sér endalaust að því að halda upp á og selja þér nostalgíu, er mikla tilbreytingu að finna í þessari litlu, merkilega áhrifaríku framhaldssögu. Hér er aðeins meira kafað ofan í það slæma sem getur fylgt fortíðarþránni.

Nú gægjumst við aftur í lífið hjá þeim Mark Renton, Spud Murphy, Simon og Begbie og skoðum hvernig þeir gera upp síðustu árin. Þegar Trainspotting kom út árið ’96 fór það ekki fram hjá fólki hvað leikstjórinn Danny Boyle náði að gæða þessa svokölluðu „músík-vídeó“ kvikmyndagerð miklu lífi og flytja hana upp á glænýtt stig. Myndin eldist vel því hún er hress, truflandi, faglega unnin og í alla staði minnisstæð. Það var í rauninni aldrei hægt að toppa frummyndina en í T2 Trainspotting er ekki einu sinni reynt að leggja í slíka örvæntingu.

Lykill góðra framhaldsmynda liggur oft í því að þora að vera öðruvísi. Í stað þess að apa eftir sambærilegri formúlu og í fyrstu myndinni fáum við gerólíkt kvikindi; sögu um minningar, vináttu, gremju, eftirsjá, sjálfsskoðun, kynslóðina fyrir neðan og rembinginn við það að horfa fram á við. Útkoman er mildari, blíðari, þroskaðri og jafnvel aðeins ýktari bíómynd, sem græðir reyndar líka á því að vera hröð, klikkuð og fyndin á köflum.

Myndin er lauslega byggð á framhaldsbókinni Porno, sem Irvine Welsh gaf út árið 2002, en segir að mestu frumsamda sögu. Myndin yfirstígur samt aldrei þann galla að hana skortir þessi „sjokk-áhrif“ sem einkenndu þá fyrri (enda þessi bara bönnuð innan tólf hér!). En í stærra samhenginu siglir T2 í áttina að fullnægjandi samantekt með skemmtilegri framvindu þar sem glímt er við flóknar tilfinningar af mikilli sál og hreinskilni. Það er líka bara eitthvað svo skemmtilegt við það að hanga með þessum aulum aftur.

(lesa má lengri umfjöllun um myndina hér)