(ath. greinin var upphaflega skrifuð í október 2014)

Undanfarin ár hafa breytingar átt sér stað hægt og rólega í því hvernig efni ég horfi á í mínum eigin frítíma bakvið luktar dyr (sjúkar hugsanir í gangi?). Ég er eiginlega alfarið hættur því að horfa á kvikmyndir heima og kýs frekar að sjá allt efni í bíó. Það er eiginlega orðið þannig að ef ég missi af myndinni í bíó þá líður oftast mjög langur tími þangað til að ég loksins sjái hana. Sjónvarpsþættir hinsvegar taka mest allan tímann sem ég nýti í áhorf. Því finnst mér tilvalið að ýta aðeins undir ákveðna þætti og fjalla um þá.

It‘s Always Sunny In Philadelphia lauk 9. seríunni sinni síðastiliðin nóvember. Nú er skiljanlegt að efast það að fjalla um þátt sem hóf göngu fyrir 9 árum. Málið er hinsvegar það að ótrúlega fáir virðast hafa séð þættina og létt google sýnir fram á að stöð 2 hafi sýnt þá en ekki að neinu viti. Sunny voru auðvitað svakalegir költ þættir upp að c.a. 5. seríu og áttu ótrúlega erfiða byrjun. Fyrsti þátturinn var búinn til fyrir undir 200 dollara (árið 2004, dollarinn var 60 kall = 12 þúsund). Eini kostnaðurinn lá í upptökuvélinni en Rob Mcelhenney keypti ódýrstu upptökuvélina sem hann fann, takið eftir því hvað gæðin á fyrstu þáttunum er skelfileg. Opnun þáttarins eru svo nokkur skot af Philly sem tekin voru í bíltúr um borgina að næturlagi. Ofan á það er opnunarstefið Temptation Sensation sem er almannaeign og þurfti því ekki að greiða nein stefgjöld.

Byrjunin var engin dans á rósum hjá þeim félögum Rob Mcelhenney, Charlie Day og Glenn Howerton. Eftir að hafa keyrt á milli sjónvarpsstöðva og spilað þáttinn fyrir fólk voru fjórar stöðvar sem voru tilbúnar til að framleiða þáttinn en það var hin glænýja FX sem var tilbúin til að gefa strákanum 100% framkvæmdarvald. Sunny fékk svo tímaramma á eftir grínþættinum Starved. Markaðsáætlun FX var að henda þessum litla pening sem þeir áttu í auglýsingaherferð Starved og vonast til að fólk myndi hinkra við eftir þáttinn og horfa á Sunny. Starved floppaði hinsvegar svo skelfilega að þetta gekk ekki upp. Í lok fyrstu seríunnar var þeim tilkynnt að þeir þurftu að fá einhvern í þáttinn sem myndi hjálpa við að draga inn áhorfendur ef þeim langaði að framleiða seríu 2. Eftir einn hitting með Danny DeVito (þökk sé sameiginlegum vin) komst í ljós að börnin hans Danny voru miklir aðdáendur og ákvað hann því að slást með í hópinn.

Snúum okkur nú að því hvað gerir þættina svona góða. Þó að það sé kannski ekkert skemmtilegast í heimi að kryfja grínþætti í von um að finna ástæðuna á bakvið það að maður hlæi. Á sínum tíma sló Seinfeld í gegn fyrir að vera byltingarkenndur á þann hátt að söguþráðurinn var bara daglegt líf. Hinsvegar voru karakterarnir allir sjálfselskandi fávitar sem tröðkuðu yfir allt og alla til að fá sitt. Þau voru þó vinir og stóðu alltaf með hvort öðru. Í Sunny hinsvegar erum við með 4 manneskjur sem líta á sig sem Guð og einn gamlan ríkan mann sem vill lifa eins og þau. Það er engin jafn mikilvægur í þeirra augum og þau sjálf. Þar á meðal fólkið innan hópsins. Ekki nóg með það að þau séu tilbúin til að traðka yfir saklaust fólk heldur eru þau einnig tilbúin til að traðka yfir hvort annað. Öll líta þau niður á hvort annað og býr það til aðstæður þar sem í raun allir tapa í lokin, ólíkt Seinfeld. Ekki nóg með það heldur eru þau öll alkóhólistar og sum þeirra mögulega nauðgarar og morðingjar.

Uppbygging þáttanna er eiginlega lykillinn að vinsældinni. Það er mikil félagsleg ádeila í gangi í hverjum einasta þætti þar sem málefni eru t.d. samkynhneigð, rasismi, nauðgun, ættleiðing, morð, fóstureyðing, velferðarkerfi og fleiri talsvert fáranlegri hlutir. Alltaf er tekið á þessum málefnum með svo mikilli satíru með þeim eina hætti að láta karakterana 5 byrja rólega umræðu um eitthvað málefni sem endar svo í algjöru rugli. Sem dæmi má nefna þegar Dee og Dennis, systkinin 2, ætla að nýta sér velferðarkerfið og láta skattgreiðendur borga allt undir sig. Lausnin þeirra verður sú að byrja á cracki og skrá sig svo sem batnandi fíkniefnaneytenda til að fá pening frá ríkinu. Þetta springur auðvitað allt í andlitið á þeim og áður en þau vita af því eru þau komin á götuna að betla pening fyrir meira crack.

Ef ég geri fljótan samanburð þá verða flestar grínseríur oft mjög þreyttar í kringum 5-7 seríu. Sunny hinsvegar hefur ekki einu sinni farið hallandi og er níunda og nýjasta serían einfaldlega með þeim betri. Þessi grimmi einkennandi húmor og over-the-top vitleysa er hvergi sjáanleg annarstaðar í sama formi og í Sunny. Fullkomin samfélagsádeila, viðbjóðslega grófur húmor og endalaus enduráhorfanleiki.

Ef þið hafið ekki gefið Sunny séns þá ættuð þið að skella ykkur í það.

Umræða: Uppáhalds þáttur og af hverju?

Fyrir aðdáendur: Það er lítið skemmtilegra en að syngja Nightman fyrir framan fullan sal af fólki í Hörpunni, treystið mér ég tala af reynslu.