“Strength defines us.”
Stronger var sýnd um daginn á sérstakri sýningu Bíóvefsins. Það er synd að þessi mynd fari ekki í almenna sýningu en hún þótti víst ekki nægilega söluvænleg. Það er svolítið skiljanlegt þar sem sagan getur hljómað frekar niðurdrepandi. Myndin er vissulega þung en hún er líka upplyftandi og gefur góða innsýn inn í heim fatlaðra. Það er farið í miklum smáatriðum ofan í þau vandamál sem geta fylgt fötlun, frá andlegri vanlíðan til erfiðra klósettferða og allt þar á milli.
Fyrir þá sem ekki vita fjallar myndin um Jeff Bauman sem missti báðar fætur í sprengingunni við Boston maraþonið árið 2013. Jake Gyllenhaal fer á kostum enn einu sinni en hann er fyrir löngu búinn að sanna sig sem einn besta leikara í heimi. Það má búast við tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir þessa frammistöðu en Tatiana Maslany, sem leikur kærustu Bauman, gæti líka komist á blað. Þetta er vel gerð og áhrifarík mynd sem fólk ætti hreinlega að sjá. Kannski verður hún sýnd eftir tilnefningarnar.
“He doesn´t show up for anything. Then he shows up.”
Leikstjóri: David Gordon Green (Pineapple Express, Your Highness, Joe)