Þessa spurningu hef ég margoft heyrt á síðustu árum en aldrei jafnoft og það sem liðið er af þessu ári. Rökin fyrir bíóferðum og rökin gegn þeim eru mismunandi og mismörg. Eins og margir lesendur vita örugglega þá er ég mikið bíóbarn og bíófíkill ™. Sem bíóbarn ætla ég aðeins að ræða rökin með bíóferðum meðan lesendur eru beðnir um að telja upp rökin á móti í kommentunum hér neðst.


1) Bíóferðir geta þjónað miklu félagslegu lífi. Mörgum af bestu vinum mínum hef ég kynnst með bíóferðum. Í Menntaskólaárunum mínum var afar algengt að ákveða mynd, dag og tíma og svo var bara hverjum sem er boðið með. Þetta var frábært fyrirbrigði því þetta bauð upp á umtal og umræður eftir myndina og næstu daga eftir á. Þannig lærði ég til dæmis um kvikmyndasmekk annarra og fór að umgangast fólk með svipaðan smekk og ég hafði.

2) Þetta er að mínu mati besta first-date aðferðin. Það skiptir engu máli hvernig mynd er farið á, mestu skiptir er að meta hvernig chemistry-ið er fyrir myndina, í hlénu, eftir myndina og jafnvel hvernig deitið hagar sér í bíói. Er hann alltaf að kíkja á símann? Talar hann yfir alla myndina? „Snappar“ hann meðan myndin er í gangi? Að fara í bíó svarar þessum spurningum og eflaust fleirum þar sem það er mismunandi hvernig kröfur margir gera á góðri bíóferð. Stundum gengur ekki alveg upp að bjóða einhverjum heim í vídjó og kúr og þá kemur bíóið sterkt inn.

3) Spoilers! Hver hefur ekki lent í því að sitja einhvers staðar, kannski á kaffihúsi eða bar, og á næsta borði eru heitar umræður um nýjustu bíómyndina. Svo þér að algerlega óvörum færðu að heyra endinn á myndinni sem átti að vera rosalegt surprise twist! Þetta er ein helsta ástæðan fyrir að undirrituð fer sem fyrst á myndir í bíó svo þær verði ekki eyðilagðar á fyrir henni. Oft hugsa margir að mynd sé ekki „BÍÓmynd“ heldur henti alveg að bíða eftir VOD-inu eða kaupi jafnvel bara á DVD og horfi þá. Biðin er þá ekki alltaf besti vinurinn því á hverjum degi er einhver að tala um myndina, hvort sem það er á kaffistofunni í vinnunni, í strætó eða jafnvel skrifaðar greinar um endinn án þess að vara lesandann við.

4) Að lokum verður bíómynd sjaldan jafngóð heima og hún er í bíóum. Í þessu samhengi á ég meira við þessar stóru, háværu og jafnvel frábæru 3D myndir heldur en litlar krúttlegar sem skilja mikið eftir á sálinni. Besta dæmið um þetta er án efa Jurassic Park 3D sýningin sem við á vefnum héldum í lok árs 2013. Ég hef horft á myndina óteljandi sinnum og hún er alltaf frábær. Ég hef séð hana allt frá litlum 14″ túbúskjá og að risastórum flatskjá þar sem heimabíóið var í botni. Það jafnast samt engan veginn á við tilfinninguna sem ég fékk þegar ég horfði á hana í Sal A í Laugarásbíói þar sem sætin titruðu með hverju skrefi risaeðlanna, þrívíddar snareðla ætlaði án djóks út úr tjaldinu og öskrið sem kom frá Grameðlunni gefur mér enn gæsahúð. Svo góð var þessi bíóupplifun. Þetta er aðeins eitt dæmi af óteljandi bíóferðum.

Þetta eru svona helstu rökin með bíóferðum sem ég get talið upp. Það eru ábyggilega fleiri til en ég vil fá að heyra ykkar rök og þá alveg sama hvort það eru með eða á móti.