Stutta útgáfan: Spielberg stígur ákveðið feilspor og býr til eina leiðinlegustu fjölskyldustórmynd síðari ára en nær þó að hitta á alla réttu strengi þegar kemur að tæknilegu hliðinni. Rammarnir eru flottir, Rylance stelur senunni og fegurðin í brellunum gjörsamlega springur af skjánum.

einkunnagjöf5

 

 

 

Langa útgáfan : Spielberg kann fullkomlega að búa fjölskyldumyndir. E.T. , Tintin og jafnvel Indiana Jones (hún er PG) eru allt fullkomin dæmi um það. Karakterarnir hans eru alltaf áhugaverðir og hann er með þeim fáu sem kann að leikstýra börnum. Miðað við ferilinn hans þá eru líka alltaf yfirgnæfandi líkur á að myndin verði góð. BFG lofar góðu þar sem Mark Rylance og Spielberg eru saman á ný og sagan virtist vera frekar ljúf og skemmtileg. Lítil stelpa kynnist risa, þau verða vinir og stefna saman á vit ævintýranna. Raunin reyndist þó vera sú að myndin snerist um risa sem rænir lítilli stelpu, læsir svo hurðinni og segir „hér ætlum við að sitja næstu 2 tímana og stara út í loftið“.

The BFG (þetta er rosalega slæmur titill!) er samt ótrúlega flott þegar kemur að öllum tæknilegum atriðum. Myndatakan og brellurnar eru alveg æðislegar. Mig grunar fastlega að Spielberg hafi haft meiri áhuga á því að framleiða tæknibrellumynd með félaga sínum Mark Rylance en að gera heilsteypta skemmtilega fjölskyldumynd. Skotin eru svo fullkomlega röðuð upp að rammarnir verða líkari listaverkum, sérstaklega þegar þeir eru fullkomin blöndun á tæknibrellum og raunverulegu umhverfi. Breytingarnar á útliti Rylance eru þvílíkt flottar og hann eignar sér algjörlega myndina sem Big Friendly Giant, því miður var varla hægt að gera greinamun á hinum risunum og það hjálpaði alls ekki að maður fékk ekki einu sinni að vita hver var hvað. Það var slappari kynning á þessum risum heldur en á dvergunum í Hobbitanum og þá er mikið sagt.

thumbnail_24441

Söguþráðurinn færist hægt og rólega áfram og hvert einasta atriði er teygt út og lengt með tómlegum uppfyllingum. Efnisviðurinn er 200 bls barnabók þannig að það er með ólikindum að Spielberg hafi náð að gera 2 tíma mynd þegar hún hefði auðveldlega getað verið 90 mínútur. Hún hefði meiraðsegja mögulega flætt töluvert betur ef hún væri stytt niður. Ég ætla meiraðsegja að leyfa mér að segja það hreint út að BFG inniheldur lélegasta og langdregnasta atriði í ferli Spielberg. Í sirka 10 mín horfum við á starfsfólk bera risanum morgunmat í höll Englandsdrottningu. Það er nánast ekkert talað í öllu atriðinu heldur sitja þau þarna, stelpan og risinn, og fá sér að borða. Atriðið endar svo í gígantískum prumpubrandara sem ætti frekar heima í low budget Disney Channel bíómynd.

Miðað við að þetta sé fjölskyldumynd þá var voðalega mikill skortur af almennilegum boðskap í myndinni. Heildar þemað er að gefast aldrei upp á draumunum sínum en myndin reynir svo mikið að troða því í hálsinn á fólki að það er ekki pláss fyrir neitt annað. Fallegasta atriðið í myndinni, sem er einnig alltof langt, snýst um að elta bókstaflega drauma. Ég held að ég hafi líka ekki séð jafn anti-climatic endir á mynd í langan tíma. Miðað við að myndin drattast til að vera 2 tíma löng þá hefði ég nú búist við því að hún gæfi sér smá tíma í almennilegt lokaatriði en í staðin ákveður hún að leysa alla hnúta og flækjur á seinustu 5 mínútunum. Mögulega er til 3 tíma R-rated útgáfa sem gefur okkur aðeins meira kjöt á réttu stöðum en eins og staðan er núna stendur uppi falleg, óáhugaverð og löng barnamynd sem verður með öllum líkindum ekki sett oft í tækið af börnum eldri en 5 ára.