Náttúra vs. Uppeldi? Það er spurningin sem fræðingar hafa reynt að svara án árangurs. Hvort okkar innsta eðli sé meðfætt eða hvort það sé lært úr uppeldi okkar og umhverfi. Psycho-sexual þrillerinn Stoker, úr smiðju Chan Wook-Park (sem færði okkur m.a. Oldboy) leggur sitt mat á vogarskálarnar í umræðuna.

Myndin, hans fyrsta á ensku, fjallar um Indiu Stoker (Mia Wasikowska) sem, eftir dauða föður síns, situr ein eftir í kotinu með veruleikafirrtri og týndri móður sinni (Nicole Kidman) þar til föðurbróðirinn sem hún vissi ekki að væri til (Matthew Goode) flytur inn á þær. Hann er myndarlegur og heillandi, og áður en langt um líður fer mamman að finna fyrir því hvað rúmið er orðið kalt á nóttunni . Þá vaknar spurningin; er hún skotmarkið eða hefur Charlie frændi annað og meira í pokahorninu?…mun India ná að halda sakleysi sínu, eða fellur hún fyrir dáleiðandi siðleysi frænda síns og öllum þeim einkennilegu atburðum og mannshvörfum sem virðast fylgja honum?

Stoker er sérlega vandaður og vel heppnaður þriller. Ekki aðeins er hún sjónræn veisla fyrir augað (Chan Wook-Park myndir eru það alltaf) heldur byggir hún á sterku handriti og skartar afar góðum leikframmistöðum á öllum vígstöðvum. Wasikowska nær vel að skila erfiðu hlutverki ungrar stúlku sem er að uppgötva kynferði sitt (og siðferði), og hún og Goode ná afar vel saman (hann leikur siðleysingja eins og innfæddur).
Þegar uppi er staðið er þetta ekta laugardagsmynd og á þennan besta hátt sem maður sér sjaldan orðið í dag.