Þá er það áttundi kaflinn í Star Wars sögunni sem byrjaði árið 1977 með geimóperu sem kvikmyndaverin höfðu litla trú á. Langlífi seríunnar er ótrúlegt en er sennilega bara rétt að byrja. Ég býst við tíu nýjum Star Wars myndum næstu tíu árin sem eru frábærar fréttir í mínum huga ef gæðin verða í takt við The Last Jedi.

Þessi mynd er góð, en er hún betri en hinar? Skiptir það máli? Mér finnst hún persónulega betri en The Force Awakens og miklu betri en Rogue One. Kaflar IV og V verða sennilega alltaf efstir á listanum en þetta er eins og að bera saman börnin sín. The Last Jedi er frábær skemmtun á allan hátt. Hún er fyndin, dramatísk, epísk með geðveikum hasaratriðum og almennt góðum leikurum. Mér fannst sértaklega gaman að sjá Mark Hamill fá að njóta sín en hann á þessa mynd.

The Last Jedi er góð en ekki fullkomin. Mér fannst hún aðeins of löng sem var sérstaklega áberandi út af 20-30 mínútna hliðarsögu með Finn og Rose (ný persóna). Sú saga var ekki mjög áhugaverð og skilaði í raun litlu sem engu. Ég var ekki að fýla Benicio Del Toro í þessari mynd, kannski var það stamið en hann var ekki í topp formi að mínu mati.

Þrátt fyrir þessa litlu galla er ég súper sáttur við þessa og get ekki beðið eftir endurkomu J.J. Abrams með lokakaflann.

“The greatest teacher, failure is.”

Leikstjóri: Rian Johnson (Brick, The Brothers Bloom, Looper)