50-shades-of-blackHinir eldhressu Wayans bræður hafa verið ansi duglegir að gera „spoof“ myndir gegnum tíðina, með misgóðum árangri. Elsti bróðirinn Keenen Ivory Wayans byrjaði mjög vel með hinni bráðfyndnu I’m Gonna Git You Sucka árið 1988 sem gerði góðlátlegt grín að „Blaxploitation“ myndum og yngri bræðrum hans tókst ágætlega upp árið 1996 með Don’t Be a Menace to South Central While Drinking Your Juice in the Hood.

En síðan þá hefur leiðin legið meira og minna niður á við. Scary Movie var þokkaleg en framhaldsmyndirnar voru hverri annari verri og allt annað sem þeir hafa gert síðan er líklega mjög vont, allavega hefur undirritaður forðast allt nýtt sem þeir hafa gert síðan hann sá trailerinn fyrir White Chicks.

Og núna eru þeir mættir aftur með nýja mynd sem nefnist Fifty Shades of Black! Tjekkið á trailernum:

Það er voða lítið hægt að segja um þennan trailer eftir að hafa horft á hann. Hann er frekar lítið fyndinn en um leið ekki algjörlega óþolandi eins og t.d. allt sem tvíeykið ógurlega Seltzer/Friedberger hafa gert. Rétta orðið til að lýsa þessu er „meh“. Fifty Shades of Grey er frekar auðvelt skotmark og Wayans bræður og samstarfsmenn þeirra (leikstjórinn er Michael nokkur Tiddes, frægastur fyrir hinar algleymdu A Haunted House myndir) hafa greinilega ákveðið að hafa ekki mikið fyrir hlutunum. Hér virðist vera á ferðinni svokallað „cash-grab“ sem fáir yfir 12 ára munu sérlega mikið hafa gaman af. Allir undir 12 ættu því að drífa sig á þessa mynd strax og hún kemur. Aðrir gætu örugglega fundið eitthvað betra við tímann að gera, eins og að endurlesa Andrésblöð eða flokka dvd safnið upp á nýtt.