Fyndið að hugsa til þess að í dag er einn stærsti brandari í sambandi við kaþólska presta barnanauðgun. Það eru til ófáir sketsar, uppistönd og fimmaura brandarar í kringum það að prestar séu barnaníðingar. Þessi ádeila og íronía varð hinsvegar til þegar það afhjúpaðist risavaxið níðingsmál hjá kaþólsku kirkjunni fyrir 14 árum. Spotlight fjallar um hópinn sem tókst að afhjúpa þetta leyndarmál og hvernig þeir fóru að því. Ég elska myndir sem ná því takmarki að gera þungt og mikið umræðuefni að dúndúrgóðri, hraðri og spennandi kvikmynd. Það er algjör list út af fyrir sig. Til að ná þessu þarf hún að vita nákvæmlega hvenær er gott að létta aðeins um sig og sækja í húmorinn, hafa flæðið nægilega ljúft og að sama skapi vita hvenær hún á að þyngja aðeins andrúmsloftið.

Handritið í Spotlight nær öllum þessum markmiðum og það hjálpar verulega til hvað engin leikari virðist stíga feilspor. Þrátt fyrir að Rachel McAdams hafi reyndar haft afskaplega lítið að spreyta sig á miðað við hana þá stendur hún sig glæsilega í að vera þarna. Myndin nær að sjúga þig svo vel inn í efnið að að þig langar helst til að fara elta næsta stórmál um leið og hún klárast og afhjúpa það í DV.