Önnur Spider-Man myndin hans Sam Raimi er fyrsta ofurhetjumyndin sem ég sá í kvikmyndahúsi. Síðan þá hefur nýr Köngulóarmaður komið og farið en ekkert hefur náð hæðum fyrrnefndrar myndar. Þangað til… nei, ókei, ekki þangað til núna en það gleður mig samt að segja að Spider-Man: Homecoming sé besta Spidey-myndin í 13 ár.

Sagan hefst á skemmtilegri samantekt á atburðum Captain America: Civil War frá sjónarhorni Peters Parker/Spider-Man, leikinn af frábærum Tom Holland. Eftir Berlínar-ævintýrið er Peter skilað heim og þar tekur við sama rútínan. Díla við smákrimma, mæta í skóla og já, takast á við unglingahormóna.

Markaðssetningin hefur mikið fjallað um myndina sem “high school” mynd í anda John Hughes. Ég var sjálfur efins um það. Ekki kaupi ég það t.d. að Captain America: Winter Soldier sé einhver pólítískur þriller bara þótt Robert Redford mæti á svæðið. Imagine my surprise þegar ég sá að þetta voru ekki bara tóm PR-orð. Homecoming er að stórum hluta algjörlega í anda 80’s unglingamynda með nokkrum tilvísunum, bæði lúmskum og augljósum (vantaði bara “Oh Yeah” lagið úr Ferris Bueller til að fullkomna eitt atriðið). Skólalíf Peters er mikilvægur partur myndarinnar og sýnir okkur í fyrsta sinn Spider-Man sem er í raun og veru bara krakki. Krakki sem þarf að sinna náminu, ekki mæta of seint heim o.s.frv ásamt því að vera ofurhetja.

Blessunarlega er myndin ekki enn önnur origin-saga en það mætti samt segja að þetta sé saga um Spider-Boy, svokallaðan, sem langar að verða Spider-Man. Þetta stendur og fellur allt með frammistöðu Tom Holland og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég ætla jafnvel svo langt að segja að hann sé minn uppáhalds Spider-Man og veistu, líka minn uppáhalds Peter Parker. Það er náttúrulega líka handritinu að þakka en Holland selur þetta. Þessi Peter vill bara sanna sig og maður vonar allan tímann að það takist.

Það er ekkert leyndarmál að góð Marvel-illmenni finnast ekki á hverju strái. Michael Keaton er hörkuleikari (sem átti að fá styttuna!) en það skilar sér ekki alltaf í gott illmenni (sjáið hvernig fór t.d. fyrir Mads Mikkelsen, Guy Pearce o.s.frv). Túlkunin á Vulture kom hins vegar þrusuvel út. Afskaplegt sniðugt líka að kynna hann strax til leiks á fyrstu fimm mínútunum. Ég ætla ekki að segja of mikið en ástæða Keaton fyrir “illverkum” sínum er nokkuð skiljanleg þótt grunn sé. Ég gæti jafnvel ímyndað mér að hann hefði getað verið sympatísk aðalpersóna í eigin spin-off mynd. Svo nær hann að vera helvíti ógnvekjandi á köflum.

Aðrar aukapersónur koma líka prýðilega út. Jacob Batalon sem leikur besta vin Peters er bráðskemmtilegur og fær að taka einhvern þátt í hasarnum. Það er ekki mikið en allt milli Peter og May, frænku hans, er mjög ljúft og þá sérstaklega ráðgjöf hennar um að skemmta sér. Seinast en ekki síst birtist Iron Man sjálfur. Mikið var gert um það í auglýsingunum en Robert Downey Jr. lætur ekki mikið sjá sig. Hann er hinn fínasti “Uncle Ben” staðgengill og nýst vel í litlum skömmtum.

Myndin ristir ekki djúpt og vill aðallega skemmta, sem henni tekst svo sannarlega. Það eru ekki mörg atriði í þyngri kantinum en þau sleppa því að þvinga inn húmor til þess að létta andrúmsloftið, eitthvað sem hefur tíðkast með sambærilegar myndir. Myndin er samt með fyndnustu Marvel-myndunum og sérstaklega þegar hún veltir fyrir sér spurningum um krafta Spider-Man, eitthvað sem aðdáendur hafa gert í langan tíma. Hvað gerir hann t.d. ef það eru engin háhýsi til að sveifla sér á milli?

Ég mæli hiklaust með myndinni og tel hana með betri eintökum Marvel-seríunnar. Það verður spennandi að sjá hvað næsta mynd ber í skauti en orðrómurinn er að Jon Watts snúi aftur til að leikstýra. Vona það besta en endilega skerið hana niður um 10 mínútur næst. Þá hefði þetta verið algjör hittari.